„Ég er hingað komin til að upplýsa að ég hef formlegt umboð til stjórnarmyndunar eftir að formenn flokkanna fjögurra sannmæltust um að hefja formlegar viðræður,“ sagði Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna eftir fund með forseta Íslands í dag. Þar óskaði Katrín eftir stjórnarmyndunarumboði. Á fundinum greindi Katrín forsetanum frá því að Vinstri græn, Samfylking, Framsóknarflokkurinn og Píratar hefðu hug á að reyna að mynda starfhæfa stjórn sem hefði minnsta mögulegan meirihluta.
Fastlega var búist við að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands myndi veita Katrínu umboð til stjórnarmyndunar. Flokkarnir fjórir sem voru í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili komust að þeirri niðurstöðu í dag að þeir vildu hefja formlegar viðræður.
Katrín sagði eftir fundinn að á næstu dögum ætti að koma í ljós hvort flokkunum fjórum takist að vinna saman. Sagði Katrín að hún vildi einbeita sér að jafnréttis og loftslagsmálum.