Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ritaði pistil á heimasíðu flokksins í dag. Þar segir hann meðal annars að Vinstri grænir séu að veita Sjálfstæðis-flokknum „uppreist æru“ og vitnar þar í málið sem varð til þess að Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn.
Þá spáir hann því einnig að Bjarni Benediktsson sé á leið úr pólitík, fái hann hvorki forsætisráðuneytið né fjármála-ráðuneytið. Þá segir hann Bjarna vera „farþega“ í atburðarrásinni og heldur áfram:
„Óleyst er þó gátan um einkar óvenjulega hegðun Sjálfstæðisflokksins. Formaður flokksins þráir nú að komast í ríkisstjórn með fólki sem hefur um langt skeið kallað hann glæpamann og öðrum verri nöfnum. Hann leitast við að koma til valda fólki sem gekk hart fram við að reyna að koma fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í fangelsi, ásamt fjármálaráðherra flokksins. Auk þess áformar hann að brjóta blað með því að gera sósíalista að forsætisráðherra á Íslandi í fyrsta skipti. Full ástæða verður til að óska Katrínu Jakobsdóttur til hamingju með að ná þessum áfanga og að hafa tekist ætlunarverkið með því að beygja bæði grasrót eigin flokks og allan Sjálfstæðisflokkinn samtímis. Það er ekki lítið afrek.“
Sigmundur sleppir ekki sínum gamla flokki:
„Framsókn kom hins vegar með sína skýringu á því hvers vegna þetta væri einmitt rétta stjórnarmynstrið. Þar á bæ virðast menn reyndar eiga a.m.k. eina skýringu á því hvers vegna hvert og eitt stjórnarmynstur, sem inniheldur flokkinn, er einmitt hið eina rétta og svo aðra til að skýra hvers vegna það gekk ekki upp.“