Opnað var á umræðu um skiptingu ráðuneytisstóla í gær í stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þaðan bárust fréttir um að skipta ætti upp fjármála- og efnahags-ráðuneytinu með það í huga að Framsókn fengi síðarnefnda ráðuneytið og Bjarni Benediktsson það fyrra.
Hinsvegar virðist Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og væntanlegur forsætisráðherra, ekki spennt fyrir þeim kosti. Aðspurð um fjölgun ráðherra og ráðuneyta sagði Katrín þetta við RÚV:
„Ég hef ekki hug á því.“
Bjarni Benediktsson sagðist, sem fyrr, ganga útfrá því að Katrín Jakobsdóttir yrði forsætisráðherra gegn því að
Sjálfstæðisflokkurinn fengi fleiri ráðuneyti í staðinn:
„Við erum ekki búin að ljúka þeirri vinnu eða því samtali. En mér þætti það eðlilegt,“
sagði Bjarni við RÚV.
Allir formennirnir töluðu um að málefnasamningur gæti legið fyrir um helgina, eða rétt eftir helgina, en leyfa þyrfti málum að þróast því allt tæki sinn tíma.