Friðheimar hlutu Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir árið 2017 í dag.
Verðalunin voru afhent af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Markmiðið með verðlaununum er að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar,
að því er segir í tilkynningu.
Friðheimar er bæði veitingastaður og tómataræktun. Á heimasíðu þess segir: „Friðheimar er fjölskyldurekið fyrirtæki þar sem eru ræktaðir tómatar allan ársins hring í raflýstum gróðurhúsum, þrátt fyrir langan og dimman vetur. Fjölskyldan tekur líka á móti gestum, sýnir þeim hvernig tómataræktunin gengur fyrir sig – og gefur þeim að smakka á afurðunum. Nú geta gestirnir líka tekið með sér heim matarminjagripi úr tómötum og gúrkum. Í Friðheimum er einnig stunduð hrossarækt og ferðamönnum boðið upp á hestasýningu á fjórtán tungumálum“, eins og fram kemur á heimasíðunni.
Er þetta í 14. skipti sem nýsköpunarverðlaun SAF verða afhent, en verðlaunahafar til þessa hafa verið:
2017 – Friðheimar
2016 – Óbyggðasetur Íslands
2015 – Into The Glacier
2014 – Gestastofan Þorvaldseyri
2013 – Saga Travel
2012 – Pink Iceland
2011 – KEX hostel
2010 – Íslenskir fjallaleiðsögumenn
2009 – Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit
2008 – Menningarsetrið Þórbergssetur, Hala í Suðursveit
2007 – Norðursigling – Húsavík
2006 – Landnámssetur Íslands
2005 – Adrenalín.is, VEG Guesthouse á Suðureyri og Fjord Fishing
2004 – Sel Hótel Mývatn og Hótel Aldan