Formlegar stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins
hófust nú upp úr hálf tíu. Fundina sitja formenn flokkanna þriggja ásamt tveimur úr hverjum flokki, líkt og í hinum óformlega viðræðum flokkanna um helgina. Katrín Jakobsdóttir mun leiða viðræðurnar að öllum líkindum, en formenn bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa talað þannig að líklegast væri að Katrín yrði forsætisráðherra í ríkisstjórn flokkanna þriggja.
Samkvæmt Fréttablaðinu í dag eru viðræður flokkanna vel á veg komnar varðandi málefni, en skattamál
verða sennilega sett á ís fyrst um sinn auk þess sem beðið verður með skiptingu ráðuneyta þar til á
seinni helming viðræðnanna.
Forseti Íslands hefur ekki gefið neinum formanni stjórnarmyndunarumboð ennþá, en hann hefur verið í
sambandi við formennina og vill líklega bíða og sjá hvernig þær ganga áður en hann kallar einhvern til
Bessastaða, sem er áætlað að verði í vikulok.
Tveir þingmenn VG greiddu atkvæði gegn því að þingflokkurinn hæfi viðræður við Sjálfstæðisflokkinn,
þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, en Rósa var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2
í morgun. Þar sagðist hún halda að viðræðurnar gætu orðið strembnar, mjög strembnar. Brynjar Níelsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins var einnig gestur í þættinum og tók undir orð Rósu. Þá sagði hann svolítið
sérstakt að vilja ekki fara í viðræðurnar, þó svo flokkurinn hefði annan kost sem væri ákjósanlegri.