Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs mun halda áfram að funda klukkan 13 í dag, um hvort farið verði í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn. Ekki náðist niðurstaða hjá þingflokknum í gær, þar sem nokkurrar andstöðu gegnir innan þingflokksins og hjá baklandinu, um að fara í samstarf með Sjálfstæðisflokknum.
Katrín Jakobsdóttir virðist hafa stuðning Steingríms J. Sigfússonar, sem í samtali við Vísi.is sagðist ætla að fylgja sínum formanni og þingflokksformanni „þétt að málum. Það er ósköp einfalt. Ég styð það sem þær leggja til.“
Þá sagðist Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, það sína persónulegu skoðun að það væri rétt að fara í þessar viðræður, þar sem VG hefði gefið það út fyrir kosningar að það myndi ekki útiloka samstarf við neinn flokk:
„Þessvegna væri það skrítið ef við útilokuðum samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningar,“ sagði Kolbeinn í fréttum RÚV í morgun.
Fari svo að þingflokkurinn samþykki að starfa með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, má gera ráð fyrir að viðræður flokkanna þriggja hefjist strax á morgun, að því gefnu að Katrín hafi þá fengið umboð til stjórnarmyndunarviðræðna frá forseta Íslands.