Samkvæmt skýrslu Hagstofu Evrópusambandsins, hvar bornir eru saman samgöngumátar borga í Evrópu, fara 83% reykvíkinga á bíl í vinnuna. Er það næst hæsta hlutfall allra Evrópuborga, en Nikósía, höfuðborg Kýpur er í efsta sæti.
Þegar kemur að notkun almenningssamganga er Reykjavík meðal neðstu borga, en þar eru landfræðilegir þættir taldir hafa þar áhrif, þar sem Reykjavík sé byggð á þröngu nesi en byggðin sé óvenju dreifð miðað við litla stærð borgarinnar.
Hinsvegar segir Björn Teitsson, formaður Samtaka um bíllausan lífstíl, í viðtali við Stundina,
að skýringuna megi finna í pólitíkinni.
„Það er algerlega viljandi gert að gera Reykjavík að bílaborg og það var pólitísk ákvörðun,
ekki einhvers konar viðbragð við landfræðilegri legu.“
Þá segir Björn að mikilvægt sé að fækka bílum þrátt fyrir rafbílavæðingu:
„Það er svo sem ágætt, og augljóslega skárra að hafa rafbíl en bensínbíl, en þegar öllu er á botninn hvolft þarf að fækka bílum, ekki fjölga þeim. Nú eiga Íslendingar svo gott sem glænýjan bílaflota bensínbíla. Offjárfesting í bílaleigubílum gerir það að verkum að hér er offramboð af bílum. Eigum við þá að fjölga bílum enn meira? Hvað verður um alla þessa bensínbíla? Þeir verða nothæfir í að
minnsta kosti 25 ár til viðbótar. Ætlast stjórnvöld til að þessum bílum verði bara lagt ?“
Þá segir Björn við Stundina, að nauðsynlegt sé að draga úr bílanotkun með öllum tiltækum ráðum.
„Þetta er ein mikilvægasta áskorun sem við höfum staðið frammi fyrir. Jafnvel þótt borgaryfirvöld vilji
fara í einkabílaátt á þessu stigi, þá er einfaldlega ekki pláss fyrir fleiri umferðarmannvirki og vegi.
Áætlanir gera ráð fyrir um 70 þúsund manna fólksfjölgun á næstu 25 árum og þá verður að draga úr notkun einkabílsins.“