Indíana Hreinsdóttir skrifar: Við erum öll slegin yfir banaslysinu á Árskógssandi þar sem ungt par með lítið barn lét lífið. Fólk í blóma lífsins var á leiðinni heim til sín þegar hið óhugsandi gerðist. Maður getur ekki ímyndað sér sorg þeirra sem standa þeim næst.
Á augnabliki getur allt breyst. Það er dapurlegt til þess að hugsa að svona reiðarslag þurfi til að fá okkur til að staldra við og minna okkur á að njóta augnabliksins og skilja að lífið er allt annað en sjálfsagt. Allt í einu verður allt skýrt og forgangsröðunin á hreinu. Pólitík og dægurmálaþras, aukakíló, gömul eldhúsinnrétting, eða eitthvað allt annað sem á það til að skyggja á hamingju okkar í amstri hversdagsins, verður hjóm eitt.
Magnús Gunnarsson, prestur í Dalvíkurprestakalli, minnir á mikilvægi þess að fólk ræði um líðan sína eftir svona slys. Í blaðinu segir Magnús enn fremur að við svona stórt áfall átti fólk sig oft ekki almennilega fyrr en lengra líður frá. Nú þegar skammdegið grúfir yfir og dagurinn styttist með hverjum deginum er enn mikilvægara að spjalla saman og hlúa hvert að öðru.
Um síðustu helgi fór tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fram en þetta var í fyrsta skipti sem hátíðin var einnig haldin hér fyrir norðan. Það er sannarlega kjörið í skammdeginu að nýta hvert tækifæri sem gefst, brjóta upp rútínuna og njóta þeirrar menningar sem er í boði á hverjum tíma. Þvílík forréttindi að fá svona flott tónlistarfólk, heimsþekkta listamenn jafnvel, á litlu Akureyri. Nú er bara að vona að nógu margir hafi keypt sig inn svo forsvarsmenn hátíðarinnar sjái sér fært að endurtaka leikinn.