Í nýrri úttekt sem Íbúðalánasjóður lét gera kemur fram að 90% þeirra vaxtabóta sem greiddar voru í fyrra runnu í vasa þeirra sem teljast til hinna efnameiri í samfélaginu.
Samtals greiddi ríkissjóður 4,6 milljarða króna í vaxtabætur, en af þeirri upphæð fóru 4.1 milljarður til efnameiri hluta þjóðarinnar. Þá renna 70% vaxtabótanna til fólks eldra en 36 ára og nýtast því ungum kaupendum húsnæðis lítið sem ekkert.
Í tilkynningu Íbúðalánasjóðs segir einnig:
„Þetta skýtur nokkuð skökku við þar sem fyrstu kaupendur verja að jafnaði
meira af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað en aðrir fasteignareigendur.
Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að hjálpa fyrstu kaupendum, sem hafa átt undir högg
að sækja vegna mikilla hækkana fasteignaverðs en samkvæmt úttektinni nýtast vaxtabætur
þessum hóp ekki sem skyldi.“
Úttektin var kynnt á opnum fundi íbúðalánasjóðs í dag undir yfirskriftinni:
Vaxta- og húsnæðisbætur; hvað getum við gert betur ?