Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og félags- og jafnréttisráðherra fráfarandi ríkisstjórnar, óttast stöðnun í þjóðfélaginu komi til ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar. Þetta segir hann
í samtali við mbl.is.
„Við vitum auðvitað ekki hversu langt samtöl hinumegin eru komin, en í stuttu máli þá hefur verið mjög mikið ákall um breytingar í samfélaginu allar götur frá hruni. Það hefur valdið mikilli pólitískri ólgu.
Stjórnmálin eiga að snúast um það hvernig við horfum til framtíðar, hvernig við tökumst á við þær miklu
áskoranir og tækifæri sem sem blasa við okkur.Maður óttast hins vegar að stjórn þessara þriggja flokka
sé fyrst og fremst að sammælast um óbreytt ástand.“
Viðreisn fundaði í dag með Pírötum og Samfylkingu, bæði til að vera undirbúin undir viðræður við VG og Framsókn
ef uppúr slitnaði við Sjálfstæðisflokkinn og einnig til að:
„…slípa saman línurnar upp á að geta veitt slíkri stjórn öfluga og málefnalega andstöðu.
Maður óttast að frjálslyndið láti undan í slíku ríkisstjórnarsamstarfi. Það veitir þá ekki
af að vera með vel samstillta stjórnarandstöðu.“