Í nýútkominni bók Jóns Steinars Gunnlaugssonar, „ Með lognið í fangið – um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“, sakar Jón Steinar Hæstarétt um dómsmorð á Baldri Guðlaugssyni, sem dæmdur var fyrir innherjasvik árið 2012. Benedikt Bogason Hæstaréttardómari hefur nú stefnt Jóni Steinari fyrir meiðyrði.
Jón Steinar vonar að hann fái sanngjarna málsmeðferð, en býst ekki endilega við því.
„Ég veit nú ekki hvaða meðferð þetta fær. En það læðist að mér grunur að ég muni ekki njóta sannmælis vegna hugarástands sumra gagnvart minni persónu, sem á rót að rekja til þess að ég hef tekið upp orðræðu um gjörðir réttarins. En ég vona að þeir sem dæmi í málinu sýni heilindi og dæmi eftir sinni bestu vitund,“ segir Jón Steinar.
En telur Jón Steinar að Benedikt hafi átt einhverja kosta völ, þegar svo stór orð eru látin falla ?
„Það sem ég segi í bókinni, réttmæti þess ræðst af efni málsins. Spurningin er sú hvort það sé einhver fótur fyrir því sem ég segi og í bókinni má finna ítarlegan rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu sem ég kemst að. En það þarf auðvitað að kynna sér efni málsins og það er það sem gert verður í þessu dómsmáli,“ segir Jón Steinar að lokum.