Brynjar Níelsson tekur til varna fyrir VG í færslu á Facebook síðu sinni í dag. Hann segir það átakanlegt að lesa um árásir stuðningsmanna VG á Katrínu Jakobsdóttur og þingflokk Vinstri grænna fyrir að ræða við Sjálfstæðisflokkinn varðandi myndun ríkisstjórnar.
Í lokin segir hann síðan:
„Kannski er það rétt sem einn góður maður sagði um muninn á milli þesara tveggja flokka.
Hann er sá að Vg fólk hatar sjálfstæðismenn meðan þeir láta sér nægja að vera ósammála Vg fólki.
Kannski er eitthvað til í þessu.“
Björn Ingi Hrafnsson skrifar í athugasemd við færslu Brynjars að það sé: „…ekki síður átakanlegt að sjá
þig kominn fremstan í í vörnina fyrir Vinstri græna. Bæði fyrir þá og ykkur sjálfstæðismenn.
Öðruvísi mér áður brá vinur minn.“
Brynjar svarar því til að hann sé ekki í neinni vörn fyrir VG:
„Ég er ekki í neinni vörn fyrir þá kæri vinur.
Vinstri grænir hafa aldrei verið fyrsti kostur hjá mér eða öðrum sjálfstæðismönnum. Ekkert frekar en að við séum fyrsti kostur hjá þeim. Stundum þarf að gera það sem þarf til að mynda starfhæfa ríkisstjórn.“
Spurningin er hvort orð Brynjars, um að gera þurfi sem gera þarf, megi túlka sem ákveðna undanlátssemi í viðræðum við VG, til dæmis þá, að láta Katrínu Jakobsdóttur eftir forsætisráðuneytið.