Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins ræddust við á heimili Bjarna í gær samkvæmt mbl.is. Var þar rætt um aðkomu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs einnig.
Formenn annarra flokka virðast ekki hafa átt í miklum samtölum í gær. Eyjan sagði frá því í gær að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ætlaði að taka því rólega og þá greindi mbl.is frá því að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins hefði ekki ráðgert neinar viðræður. Þá hefur lítið heyrst frá herbúðum Pírata og Miðflokksins en Logi Einarsson formaður Samfylkingar ku ekki hafa gefist upp á miðju-vinstri stjórn, þá væntanlega með aðkomu Viðreisnar líkt og hann stakk upp á í stofunni hjá Sigurði Inga í viðræðum VG, Pírata, Samfylkingar og Framsóknarflokksins.
Bjarni, Katrín og Sigurður Ingi hafa sagt að eðlilegt væri að formennirnir fái lengra svigrúm til viðræðna áður en forseti Íslands veiti einhverjum formanni umboðið til stjórnarmyndunarviðræðna og er talið að það svigrúm geti náð fram yfir helgina.