Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins stakk upp á þeirri hugmynd að sex flokkar myndu leiða næstu ríkisstjórn. Væri þá um að ræða stjórnarandstöðuna ásamt Viðreisn og Flokki fólksins. Vakti frétt Vísis þess efnis frá því í gær mikla athygli. Í hádegisfréttum Bylgjunnar er fjallað nánar um málið. Þar sagði:
„Þessi hugmynd mun nánast hafa verið andvana fædd þar sem undirtektir annarra við henni voru ekki góðar.“
Stundin birti frétt rétt fyrir hádegi í dag sem heldur fram að enn sé unnið að þessari sexflokka stjórn sem Vísir segir nú að sé andvana fædd. Í frétt Stundarinnar segir að Katrín Jakobsdóttir yrði þá forsætisráðherra. Segir í frétt Stundarinnar að mikil leynd sé yfir þessum þreifingum. Þar kemur einnig fram að tilraunir til að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG hafi strandað í gær og að VG hafi viljað hafa Samfylkinguna innanborðs.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar segir að takist Katrínu ekki að leiða saman stjórnarandstöðuna í eina sæng aukist líkur á að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins myndi ríkisstjórn.
Inga Sæland tjáir sig við Morgunblaðið um mögulega sex flokkka stjórn. Þar telur hún líkur á að takist að mynda slíka stjórn. Hún segir:
„Mér líst rosalega vel á það sem ég held að verði. Ég er alveg sannfærð um að það sé kominn tími til breytinga og að við séum að fara að ná fram réttlæti fyrir fólkið okkar í landinu. Ég trúi því af öllu mínu hjarta.“