Tveir þingmenn Flokks fólksins hafa verið á örorkubótum. Þetta eru þau Inga Sæland formaður flokksins og Guðmundur Ingi Kristinsson. Þau eru nú launþegar eftir að hafa verið kosin á þing. Inga Sæland er lögblind og Guðmundur Ingi hefur verið örykri frá árinu 1999. Samkvæmt heimildum Eyjunnar hefur það ekki gerst áður að tveir þingmenn fari af bótum inn á þing og gerist launþegar.
Guðmundur tjáir sig um þessu breyttu kjör í samtali við Morgunblaðið. Hann segir:
„Við missum allt það og verðum launþegar.“ Þá er haft eftir honum að þau muni uppifa skerðingu á næsta ári vegna tekna sem þau fá nú í lok árs. „Við þurfum að endurgreiða og alls konar.“ Þann 1. júlí 2018 fer fram uppgjör ársins. „Það munu koma stórfurðulegir hlutir úr þeim potti og ég hlakka eiginlega bara til að sjá hvernig það kemur út,“ segir Guðmundur og bætir við að margir öryrkjar lendi í að þurfa að endurgreiða ef þeir afla tekna á meðan þeir þiggja bætur. Það fæli öryrkja til að vinna aukalega með bótunum. Dæmi séu um að öryrkjar hafi tapað húsleigubótum og orðið fyrir frekari skerðingum vegna þátttöku á vinnumarkaði.
Guðmundur þekkir þetta vel. Hann var lögreglumaður í sjö ár og síðar verslunarstjóri Brynju. Hann lenti í bílslysi 1993 og aftur 1999. Eftir það hefur hann farið í þrjár aðgerðir og verið öryrki. Áður en hann gekk í Flokk fólksins var hann í Pírötum.
„Hinn 1. júlí er kallaður skerðingardagurinn, fyrir flesta. Þetta er bara eins og hlutskipti flestra öryrkja sem er auðvitað alveg skelfilegt, að tekjurnar skuli hafa svona rosalega mikil áhrif.“