Hallgrímur Helgason fer mikinn á ritvellinum í dag í pistli á Stundinni. Pistillinn, sem ber yfirskriftina „Tröllin bak við tjöldin“, er fullur af ýmiskonar kenningum sem Hallgrímur telur að sé skýringin á stöðu íslenskra stjórnmála í dag. Þá verður ekki annað lesið úr pistlinum en hann sé að gagnrýna forystu Samfylkingarinnar fyrir það eitt að íhuga samstarf með miðju- og hægri flokkum. Hallgrímur var í 8. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í nýafstöðnum kosningum.
Til dæmis sakar hann Sigurð Inga Jóhannsson formann Framsóknarflokksins um að „ráða ekki eigin flokki,“ heldur sé Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri á Sauðárkróki, sá sem öllu ræður og kallar Hallgrímur hann „Myrkrahöfðingjann í Skagafirði“, væntanlega til aðgreiningar frá kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar.
Þá segir Hallgrímur:
„Davíð hringir í Lilju Alfreðs á hverjum degi,“ segja þingmenn í prívatsamtölum. Og Davíð hringir í Sigmund kvölds og morgna, það vissum við fyrir. Hvað hringir hann í marga þingmenn í eigin flokki? Áður en Bjarni Ben varð formaður var hann fríþenkjandi Evrópusinni og lét sig dreyma um evru. En eftir formannskosninguna varð hann múlbundinn af Mogganum, Davíð og LÍÚ. Um leið og þú verður formaður flokksins ertu sviptur sjálfsforræði. Það er sorglegt en því miður satt.“
Þá lætur Hallgrímur gamminn geysa um hina margtuggðu hagsmunapólitík og hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið fyrir „trömpískri“ aðför að lýðræðinu, með því að dæla út myndböndum á Youtube, sem átti að fá almenning til að hræðast „skatta Kötu“ og á þar væntanlega við Katrínu Jakobsdóttur.
Þá varar Hallgrímur við því að Samfylking setjist í stjórn með „þessu liði“.
„…fólki sem lætur stjórnast af tröllunum bakvið tjöldin. Ég segi nei. Ég segi aldrei. Það er ekkert við þetta fólk að tala. Hversvegna ættum við að setjast í stjórn með flokki sem kóaði með barnaníðingi í þágu fjölskyldu formannsins, setti lögbann á fjölmiðla í miðri kosningabaráttu, stóð fyrir svívirðilegri og „nafnlausri“ áróðursherferð í kosningunum (sem fjármögnuð var framhjá lögum um stjórnmálaflokka) og hefur formann sem ítrekað hefur logið að þjóðinni um gerðir sínar, faldi viðkvæmar skýrslur á viðkvæmum tímum, notaði stjórnmálatengsl sín til að bjarga viðskiptagróða fimm mínútum fyrir Hrun, og var að auki í Panamaskjölunum? Auðvitað látum við það eiga sig, auðvitað komum við ekki nálægt slíku.“
Ljóst er á þessum skrifum að Hallgrímur kýs helst að Samfylking fari ekki í viðræður við Framsókn, Sjálfstæðiflokk eða Miðflokkinn, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Hvort forysta Samfylkingarinnar hlusti á þessi varnaðarorð Hallgríms er svo annað mál, en Hallgrímur nýtur hinsvegar mikillar hylli hjá mörgum vinstri-krötum, ekki síst fyrir gagnrýni sína á hægri pólitík í gegnum árin.