Samkvæmt heimildum Eyjunnar eru engar viðræður við aðra flokka á dagskrá í dag hjá Viðreisn.
Innanbúðarmenn segja Þorgerði Katrínu mjög afslappaða og vilji leyfa málunum að þróast. Helstu möguleikar Viðreisnar hafa verið taldir að komast í stjórn með Sjálfstæðisflokki, VG og Framsókn, eða þá með VG, Pírötum, Samfylkingu og Framsókn, líkt og fyrst var reynt. Er það einnig sagður vilji forystunnar hjá Viðreisn að fara frekar til vinstri en hægri.
Samkvæmt heimildum Eyjunnar var aldrei haft formlegt samband við Viðreisn, þó svo Logi Einarsson, formaður
Samfylkingarinnar, hafi viðrað þá hugmynd í stofunni heima hjá Sigurði Inga Jóhannssyni formanni Framsóknar. Hugmyndin hlaut ekki brautargengi þar, enda væri þá komin fimm flokka stjórn, sem flestir formenn vilja væntanlega forðast.