Svokölluð nýliðakynning Alþingis fór fram í dag þar sem 19 nýjir þingmenn fengu kennslu frá Helga Bernódussyni, skrifstofustjóra alþingis um hvernig ætti að bera sig að í störfum þingsins.
Helgi sagðist lítast vel á mannskapinn nú sem endranær. „Þetta gekk mjög vel. Mér líst vel á þessi nýju andlit og þetta er góður hópur. Þetta er bara svona kynning á þeirri þjónustu sem skrifstofan veitir og það sem þingmenn þurfa að vita, aðallega svona praktísk atriði, eins og klæðaburð og slíkt. Það er engin pólitík í þessu,“ sagði Helgi.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir er nýkjörin þingmaður Samfylkingarinnar í norðausturkjördæmi. Hún segir daginn hafa verið skemmtilegan og fróðlegan.
„Já, þetta mjög gaman í dag, einn skemmtilegasti skóli sem ég hef farið í. Það var gaman að fá innsýn í sögu hússins og ég fann að það var þarna góður andi þrátt fyrir átök í gegnum árin. Það kom helst á óvart hversu lítill þingsalurinn er í raun svona miðað við það sem maður sér á skjánum en það sem kom skemmtilegast á óvart er hvað stólarnir voru þægilegir,“ sagði Albertína fegin.