Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, eru sagðir þrýsta á Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, um myndun ríkisstjórnar án aðkomu annarra flokka.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins í dag um gang stjórnarmyndunarviðræðna.
Samkvæmt heimildum blaðsins hafa forystumenn Sjálfstæðisflokks og VG rætt saman en einnig Framsóknarflokks um það hver eigi að leiða viðræðurnar. Ef á að verða af samstarfi með Sjálfstæðisflokki og Framsókn er Katrín sögð vilja Samfylkingu eða Viðreisn inn í slíka ríkisstjórn.
Katrín og Bjarni eru bæði sögð vilja forsæti í mögulegu ríkisstjórnarsamstarfi. Fari svo að Katrín verði forsætisráðherra eru Sjálfstæðismenn sagðir vilja fá fleiri ráðherrastóla og er það meðal annars ástæða þess að þeir vilja þriggja flokka stjórn án aðkomu fleiri flokka, Samfylkingar eða Viðreisnar til dæmis.
Þá herma heimildir Fréttablaðsins að Miðflokkurinn sé ekki útilokaður frá mögulegu samstarfi og eru bæði Bjarni og Katrín sögð hafa átt samtöl við hann síðustu daga.