Niðurstöður kosninga liggja fyrir. Í Norðausturkjördæmi hélt Framsóknarflokkur sínum tveimur mönnum. Nýr flokkur, Miðflokkurinn, fær tvo menn inn. Píratar missa sinn mann en Samfylkingin bætir við sig manni. Sjálfstæðisflokkurinn missir einn af þremur, Vinstri græn halda sínum tveimur en Viðreisn missir sinn mann. Akureyri vikublað fjallaði um niðurstöðu kosninganna.
Íslendingar gengu til kosninga á laugardaginn. Úrslitin eru ljós. Í Norðausturkjördæmi datt Valgerður Gunnarsdóttir í Sjálfstæðisflokki út af þingi. Sömu sögu er að segja af Einari Brynjólfssyni, oddvita Pírata, og Benedikt Jóhannessyni, fjármálaráðherra og fyrrverandi formanni Viðreisnar. Nýir þingmenn kjördæmisins eru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Samfylkingu, og Anna Kolbrún Árnadóttir, Miðflokki. Akureyri Vikublað tók stöðuna á fráfarandi þingmönnum sem og nýjum þingmönnum kjördæmisins. Engin svör bárust frá Valgerði Gunnarsdóttur.
Mikil vonbrigði
Píratinn Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, formaður þingflokks Pírata, dettur út af þingi eftir eins árs setu. Píratar eiga nú engan þingmann í kjördæminu. Úrslitin hljóta að vera mikil vonbrigði?
„Já, þetta eru mikil vonbrigði, enda vantaði ekki mikið upp á að ég næði inn. Þetta eru líka mikil vonbrigði hvað stóra samhengið varðar. Umbótaöflin eiga greinilega ekki upp á pallborðið hjá kjósendum, sérstaklega í þessu kjördæmi.“
Hvað klikkaði? „Núna verðum við Píratar að greina hvað fór úrskeiðis, svo við getum gert betur næst.“
Hvað tekur nú við? „Hvað mig sjálfan varðar þá sný ég aftur til fyrri starfa við Menntaskólann á Akureyri.“
Frábært að vakna sem þingmaður
Anna Kolbrún Árnadóttir, Miðflokki, er ný inn á þing. Miðflokkurinn bauð fram í öllum kjördæmum og skilaði mestu fylgi sem nýr flokkur hefur fengið í Íslandssögunni. Í Norðausturkjördæmi fékk flokkurinn 18,59% atkvæða. Hvernig var að vakna sem þingmaður?
„Það var undarleg tilfinning, ég vildi sjá árangur en gerði mér ekki grein fyrir að við myndum ná svona frábærum árangri. Það var því í senn skrýtið og frábært að vakna.“
Hefurðu gengið með þingmanninn í maganum lengi? „Nei, alls ekki, það eru aðeins nokkrar vikur síðan ég tók ákvörðun um að gefa kost á mér fyrir Miðflokkinn.“
Hvernig verður framhaldið? Muntu flytja suður?
„Ég sé fyrir mér að ég þurfi að finna mér húsnæði á höfuðborgarsvæðinu en við fjölskyldan höfum ekki ætlað okkur að flytja suður, okkur líður mjög vel á Akureyri.“
Hvernig líst fjölskyldunni á nýja starfið? „Henni líst mjög vel á nýja starfið, vissulega nýjar aðstæður en ekkert sem við getum ekki greitt úr og fundið lausn á.“
Enn örlítið óraunverulegt
Samfylkingin bætti við sig manni í kjördæminu. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir er nýr þingmaður Norðausturkjördæmis. Hvernig var að vakna sem þingmaður ? „Satt best að segja þá er þetta enn örlítið óraunverulegt en hefur sannarlega orðið raunverulegra eftir því sem liðið hefur á vikuna. Heilt yfir er þetta virkilega góð tilfinning og ég er mjög spennt að leggja mitt af mörkum á Alþingi Íslendinga.“
Ætlarðu að flytja suður? „Nei, ég ætla að búa áfram á Akureyri en mun auðvitað að hafa aðsetur í Reykjavík til að sækja þing- og nefndarfundi. Bæði líður mér svo vel á Akureyri að ég vil alls ekki flytja og svo finnst mér mikilvægt að halda sterkum tengslum við kjördæmið.“
Hefurðu gengið með þingmanninn í maganum í einhvern tíma? „Nei, ég get ekki sagt það og ef þú hefðir spurt mig fyrir einum og hálfum mánuði hvort ég væri á leiðinni í framboð til Alþingis þá hefði ég þvertekið fyrir að það væri á dagskrá hjá mér. En svo gerðist þetta allt á ótrúlega skömmum tíma, rétt rúmur mánuður frá því ég var beðin um að taka sæti á listanum og þar til ég var kjörin á þing.“
Hvernig fannst þér kosningabaráttan? „Heilt yfir þá var þetta virkilega skemmtileg kosningabarátta og mikil forréttindi að fá að ferðast um kjördæmið, kynnast fjölda frábærs fólks og fá tækifæri að skyggnast svolítið á bak við tjöldin.“
Óljós skilaboð
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, dettur út af þingi eftir eins árs setu. Þar með er enginn þingmaður Viðreisnar í kjördæminu. Eru niðurstöður kosninga áfall?
„Ekki beinlínis áfall því í stjórnmálum verður maður að vera við ýmsu búinn. En þetta eru auðvitað vonbrigði því að ég hafði mikinn áhuga á því að vinna áfram fyrir kjördæmið og hef haft ánægju af því.“
Hvernig túlkarðu stöðuna? „Skilaboðin í kosningunum eru í besta falli óljós og ólíklegt að mynduð verði stjórn með skýra stefnu.“
Hvað tekur við hjá þér? „Ég verð ráðherra þar til ný stjórn verður mynduð. Ég hef alltaf fundið mér meira en nóg að gera og reikna með að það verði áfram.“