Hverjum á að fela umboðið? Spyr Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins. Hver er sigurvegari kosninganna?
Þessum spurningum varpar Gunnar fram í Morgunblaðinu í dag. Sigraði sá flokkur sem bætti mest við sig prósentulega eða flokkurinn sem bætti við sig flestum þingmönnum? Er sá stærstur sem tapaði minnst eða flokkurinn sem sneri töpuðu tafli sér í vil?
„Eða er það kannski sá sem snéri baráttunni við þegar allt stefndi í óefni, náði að bjarga sér en setti samt tapmet í sögu flokksins? Hver er sigurvegarinn?“
Gunnar Bragi bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað flestum þingmönnum en er stærstur. Vinstri græn bættu aðeins við sig einum þingmanni. Viðreisn og Píratar töpuðu miklu fylgi frá síðustu kosningum. Á meðan náði Flokkur fólksins glæsilegri kosningu. Gunnar Bragi hjólar svo í sinn gamla flokk, Framsóknarflokkinn sem hann segir hafa teflt fram varaformanninum þegar allt stefndi í óefni. Á hann þar við Lilju Alfreðsdóttur, vinkonu Sigmundar Davíðs.
„Viðreisn skipti um formann er illa gekk en Framsókn skreytti sig með varaformanninum í stað þess að láta hana taka við og leiða flokkinn til sigurs. Staðan batnaði en varð engu að síður versta kosning í hundrað ára sögu flokksins.“
Að mati Gunnars Braga er Miðflokkurinn sigurvegari kosninganna. Flokkurinn hafi verið stofnaður fyrir fjórum vikum en sé nú fjórði stærsti flokkur landsins.
„Hvort sem horft er á prósentur eða þingmannafjölda er ljóst að Miðflokkurinn er sigurvegari kosninganna. Nú er spurning hvað forsetinn gerir. Mun hann láta formann Vinstri grænna reyna við vinstristjórn með Samfylkingu, Framsóknarflokki og Pírötum? Enginn af þessum flokkum nema kannski Samfylkingin náði marktækum árangri í kosningunum, var þá þessari stjórn ekki hafnað?“
Gunnar Bragi bætir við að lokum:
„Ljóst [er] að mynda þarf ríkisstjórn sem stendur traustum fótum og er reiðubúin að vinna saman næstu fjögur árin fyrir land og þjóð. Ríkisstjórn sem hefur plan er sú ríkisstjórn sem við þurfum núna.“