„Hugsið ykkur í hvaða stöðu Framsóknarflokkurinn er, en eins og allir sjá þá er hann í þeirri stöðu að erfitt verður að mynda ríkisstjórn á Íslandi án þeirra aðkomu,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í pistli á vef Pressunnar.
Þar gerir Vilhjálmur sterka stöðu Framsóknarflokksins að umtalsefni og segir að í ljósi stöðu sinnar ætti flokkurinn að geta náð fram sínum helstu baráttumálum á undanförnum árum.
Vilhjálmur bendir á að aðalbaráttumál Framsóknarmanna í undanförnum kosningum hafi verið lækkun vaxta, afnám verðtryggingar og endurskipulagning á fjármálakerfinu.
„Það muna allir eftir einu af aðalkosningarloforðum Framsóknarmanna 2013 sem var afnám verðtryggingar, en það náðist ekki í gegn vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir að það mál yrði að veruleika.“
Í ljósi þess að Framsóknar er nú í lykilstöðu við myndun nýrrar ríkisstjórnar þá hljóti að blasa við að í nýjum stjórnarsáttmála verði skýrt kveðið á um lækkun vaxta, afnám verðtryggingar og endurskipulagningu á fjármálakerfinu.
„Höfum það hugfast að þessi mál eru og hafa verið númer eitt hjá Framsóknarflokknum og hann mun klárlega ekki geta skýlt sér á bakvið að hann hafi þurft að semja frá sér þessi atriði við aðra flokka. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að Framsóknarflokkurinn getur m.a. leitað til Miðflokksins og Flokks fólksins sem voru og eru með nákvæmlega þessi mál á sinni stefnuskrá. Með öðrum orðum þá liggur fyrir að þessir þrír flokkar eru allir með það á sinni stefnuskrá að lækka vexti verulega, afnema verðtryggingu og endurskipuleggja fjármálakerfið þar sem hagsmunir almennings verði teknir framyfir hagsmuni auðvaldsins,“ segir Vilhjálmur sem bætir við að óhugsandi sé, að hans mati, að Framsókn myndi ríkisstjórn með flokkum sem eru á móti afnámi verðtryggingar.
Flokkurinn muni ekki geta skýlt sér á bak við það að öll hans stærstu kosningaloforð náist ekki. Ástæðan sé einfaldlega sú að hann geti leitað til flokka sem eru honum sammála hvað þessi mál varðar.
„Á þessari forsendu verður gríðarlega forvitnilegt að fylgjast með Framsóknarflokknum sem hefur það algerlega í hendi sér hvernig ríkisstjórn verður mynduð hér á landi. Mun flokkurinn fórna aðalkosningarloforðum sínum eins og t.d. afnámi verðtryggingar og lækkun vaxta fyrir því að fá forsætisráðneytið? Þessari spurningu er ekki hægt að svara núna en næstu dagar munu leiða það í ljós!“