Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að réttast væri að VG, Samfylkingin, Framsókn og Píratar myndi næstu ríkisstjórn. Hún segist hafa talað við formenn flokkanna og séu þeir allir reiðubúnir að skoða þann möguleika að mynda saman ríkisstjórn. Þetta kom fram á blaðamannafundi á Bessastöðum en hún var önnur í röðinni að funda með forsetanum í morgun.
Þetta kemur fram á Vísi.Katrín sagði að stjórnarviðræður séu ekki komnar það langt að hún hafi starfhæfan meirihluta á bak við sig. „Ég gerði honum líka grein fyrir að ég tel eðlilegastan fyrsta kost að fráfarandi stjórnarandstöðuflokkarnir, sem samanlagt eru með 32 manna meirihluta á nýju þingi, að við skoðum hvort það séu forsendur fyrir því að mynda ríkisstjórn,“ sagði Katrín.
Hún sagði að það gæti vel komið til greina að fimmti flokkurinn kæmi að stjórninni. „Þetta er byrjunin að okkar mati en eins og ég hef líka sagt þá höfum við ekki útilokað neina möguleika,“ sagði Katrín.