Í morgunblaðinu er bæði Staksteinar og leiðari nýttur til að gera lítið úr árangri stjórnarandstöðunnar í kosningunum. Vinstri grænir, Samfylking, Framsóknarflokkurinn og Píratar ná samtals 32 þingmönnum. Bæta eir við sig einum manni. Í leiðara blaðsins er einnig talað á svipuðum nótum. Í Staksteinum segir:
„Formennirnir telja að þetta séu skilaboð um að reyna eigi að mynda ríkisstjórn stjórnarandstöðunnar og benda líka á í því sambandi að ríkisstjórnarflokkarnir hafi misst marga þingmenn. En vandinn við þessa kenningu er meðal annars sá að stjórnarandstaðan bætti nánast engu við sig, aðeins einum þingmanni, og er nú með 32 menn,“ segir Davíð og bætir við:
„Formaður Framsóknarflokksins benti réttilega á að ekki væri árennilegt að reyna stjórn með svo naumum meirihluta.“
Segir í Staksteinum að Miðflokkurinn og Flokkur fólksins hafi bætt við sig flestum mönnum og þeir séu ekki hluti af stjórnarandstöðu.
„Og góður árangur þeirra er ekki heldur til marks um vinstrisveiflu þó að formenn Samfylkingar og VG reyni að lesa hana út úr stöðunni. Staðreyndin er sú að vinstriflokkunum mistókst – og vantar mikið upp á – að ná meirihluta á þingi þó að kannanir hafi fyrir nokkrum vikum bent til að svo gæti farið.“
Leiðari Morgunblaðsins
Í leiðara blaðsins er einnig fjallað um kosningarnar. Þar spáir Davíð einnig í spilin hvað varðar framtíð flokkanna. Sigmundur Davíð formaður Miðflokksins fær hrós og þá talar Davíð um að Framsóknarflokknum hafi tekist að halda sínu með því að tefla fram Lilju Alfreðsdóttur. Um Sigmund segir Davíð:
„Fáum datt þó í hug að Sigmundur myndi telja raunhæft að stofna flokk, manna hann í kjördæmunum og heyja baráttu sem gæti skilað árangri. Það þurfti kjark til. Ríkisútvarpið reyndi að sparka í Sigmund strax í byrjun eins og hafinn væri seinni hálfleikur misnotkunar Kastljóssins fyrir rúmu ári.“
Þá snýr Davíð sér að Bjartri framtíð:
„Björt framtíð setti á kosninganótt upp þá senu að flokkurinn hefði sýnt einstakan siðferðisstyrk með fíflafiðringi sínum nóttina góðu. Kjósendur hafa augljóslega skömm á því tali. Þvert á gengi í könnunum ákváðu þeir hins vegar að fela Flokki fólksins raunhæft verkefni og veltur á miklu að hann rísi undir því. Ef ekki þá er framtíð hans jafn björt og Björtu framtíðarinnar.“
Um Viðreisn og Pírata segir Davíð:
„Viðreisn á sér ekki viðreisnar von og línuritin benda til þess að flokkur Pírata sé á förum og enn hefur hann ekki sett neitt mark á íslensk stjórnmál og er nú fullreynt.“