Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir niðurstöðu kosninganna ekki vera neinn sigur fyrir stjórnarandstöðuna. Hann fór fyrstur formanna á fund forseta í morgun á Bessastöðum. Hann segist ekki vera með fullformaða hugmynd um ríkisstjórn.
Þetta kemur fram á Vísi. „Í fyrsta lagi finnst mér þetta hjákátleg skýring á niðurstöðum kosninganna. Auðvitað sjá það allir að það eru nýju flokkarnir sem eru stóru tíðindin í þessu. 32 þingmenn fyrir stjórnarandstöðu þegar einn stjórnarflokkurinn þurrkast út af þingi og hinir báðir tapa mönnum, það er enginn sigur fyrir stjórnarandstöðuna, enda var þetta ekki samstillt stjórnarandstaða,“ segir Bjarni.
Bjarni er óviss um hvort hann eigi von á löngum stjórnarmyndarviðræðum. „Ég er ekki kominn hingað í dag með formaðan meirihluta og ég er þeirrar skoðunar að það kunni jafnvel að vera ágætt í kjölfar þessara kosninga að leyfa rykinu aðeins að setjast og leyfa fólki að eiga samtal, jafnvel óformlegar viðræður,“ segir Bjarni.