Lokatölur liggja nú fyrir í fjölmennustu kjördæmunum. Þegar talin hafa verið 197.905 atkvæði er Sjálfstæðisflokkur með 25,2 prósenta fylgi og 16 þingmenn kjörna en Vinstri græn með 16,9 prósenta fylgi og 11 þingmenn kjörna.
Sjálfstæðisflokkur missir fimm þingmenn frá síðustu kosningunum á meðan Vinstri græn bæta við sig einum.
Samfylkingin og Miðflokkurinn fá bæði sjö þingmenn; fylgi Samfylkingar er 12,1 prósent en fylgi Miðflokksins, sem bauð fram í fyrsta skipti, er 10,8 prósent. Framsóknarflokkurinn fær 8 þingmenn kjörna og heldur þingmannafjölda sínum.
Píratar missa fjóra þingmenn frá síðustu kosningum þegar flokkurinn fékk tíu þingmenn. Hann fær sex þingmenn nú og 9,2 prósent atkvæða. Flokkur fólksins og Viðreisn eru síðan jafn stórir og fær hvor flokkur fjóra þingmenn. Flokkur fólksins er með 6,9 prósent atkvæða en Viðreisn 6,7 prósent.
Þetta þýðir að átta flokkar munu eiga fulltrúa á þingi.