„Mér hefur heyrst hann hallur undir þá kenningu að sá flokkur sem vinnur stærstan sigur byrji á að fá stjórnarmyndunarumboðið. Og ég held að það megi alveg færa rök fyrir því að Miðflokkurinn hafi unnið stærsta sigurinn í þessum kosningum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við RÚV í hádeginu.
Miðflokkurinn, sem bauð fram í fyrsta sinn í kosningunum, hlaut góða kosningu, eða 10,9 prósenta fylgi og sjö þingmenn kjörna.
Bæði Sigmundur og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gera tilkall til að fá umboðið frá forsetanum. Bjarni sagði að þó svo að stjórnin hefði fallið væri eðlilegt að flokkurinn sem leiðir í öllum kjördæmum, Sjálfstæðisflokkurinn, fái umboðið. Bjarni sagðist þó ekki hafa rætt við forsetann.
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 25,25 prósenta fylgi og 16 þingmenn kjörna. Í kosningunum í fyrra fékk flokkurinn 21 þingmann.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir eðlilegast að sá flokkur fái stjórnarmyndunarumboð sem telur sig geta myndað starfhæfa ríkisstjórn. Í samtali við mbl.is sagðist hana langa til að leiða ríkisstjórn. „Alveg absalút,“ sagði hún.
Vinstri græn fengu 16,9 prósenta fylgi í kosningunum í gær og bættu við sig einum þingmanni, fóru úr 10 í 11.