„Við eigum erindi í allt,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, en flokkurinn vann góðan sigur í Alþingiskosningunum í gær. Flokkurinn fékk fjóra þingmenn kjörna, en auk Ingu náðu Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson og Guðmundur Ingi Kristinsson kjöri.
Í samtali við Mbl.is segir Inga að þakklæti og auðmýkt komi upp í hugann en flokkurinn endaði með 6,9 prósenta fylgi í kosningunum. Flokkurinn hafði mælst nokkuð neðar í skoðanakönnunum og var ekki útséð með það hvort hann næði manni inn á þing.
Inga segir við mbl.is að flokkurinn eigi fullt erindi í ríkisstjórn og þá útilokar hún ekki að vinna með neinum flokki.