„Þetta er nú kunnuglegt því ég fór að sofa utan þings í fyrra og datt inn á lokametrunum,“ sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, í samtali við RÚV.
Andrés Ingi komst inn á þing á lokametrunum eftir að tölur úr Reykjavíkurkjördæmi norður lágu fyrir í morgun. Þegar hann fór að sofa var útlit fyrir að hann kæmist ekki á þing.
Andrés segir að það hafi unnið með honum að vera í kjördæmi formannsins, Katrínar Jakobsdóttur.
Fylgi Vinstri grænna á landsvísu er 16,9 prósent þegar talin hafa verið 197.805 atkvæði. Aðspurður hvort hann sé ánægður með gengi Vinstri grænna í kosningunum viðurkennir hann að hann hafi viljað sjá sterkari kosningu. „En við vinnum vel úr þessu.“