fbpx
Fimmtudagur 31.júlí 2025
Eyjan

Tími til að breyta, tími til að gera betur

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 28. október 2017 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steingrímur J. Sigfússon, höfundur greinar. Mynd:DV/Sigtryggur Ari

Kosningarnar næstkomandi laugardag eru afar mikilvægar og hafa alla möguleika til að verða sögulegar. Þær fela í sér tækifæri, enn eitt má segja, til að gera upp við hægri stefnuna sem ráðið hefur ríkjum á Íslandi með einu hléi frá 1991. Það hlé kom eins og kunnugt er ekki til af góðu. Eftir nær tveggja áratuga samfellda hægri og nýfrjálshyggju stefnu á Íslandi, hrundi allt til grunna. Þá kom til kasta vinstri stjórnar að bjarga úr rústunum og leggja grunn að uppbyggingu. En, hægrið komst aftur til valda 2013 og hefur ríkt síðan í tveimur ríkisstjórnum sem hvorugri tókst reyndar að lifa út sitt kjörtímabil. Þó Íslandi hafi vegnað vel efnahagslega allt frá því að landið tók að rísa á síðari hluta árs 2010, er ekki þar með sagt að við getum ekki gert betur.

Gerum betur

Kosningarnar næstkomandi laugardag eiga einmitt að snúast um að við getum gert betur. Við getum gert betur en að undanförnu í að byggja landið og samfélagið upp, ekki síst í ljósi þess hversu miklu betur árar en fyrr. Erum við að skila batnandi þjóðarhag og aukinni verðmætasköpun til þjóðarinnar allrar með sanngjörnum hætti og erum við að byggja upp, búa í haginn fyrir framtíðina? Erum við að endurnýja innviðina, erum við að sækja fram á sviði heilbrigðis- og menntamála, hefur unga fólkið okkar óbilandi trú á framtíðinni á Íslandi, erum við að auðvelda því að koma undir sig fótunum og festa sér húsnæði á viðráðanlegum kjörum? Eru aldraðir og öryrkjar sáttir við sinn hlut? Erum við almennt byrjuð að borga svo einhverju nemi inn á skuldina sem hin erfiðu ár söfnuðu upp?

Því miður vantar allt of mikið uppá mest af þessu. Við Vinstri græn lögðum mikla áherslu á það fyrir alþingiskosningarnar í fyrra að brjóta þyrfti í blað og hefjast handa um uppbyggingu innviða og eflingu undirstöðuþátta velferðarsamfélagsins. Þörfin blasir enn frekar við nú eftir að heilt ár hefur farið í súginn með máttlausri hægri stjórn sem ósköp lítið hugðist aðhafast næstu fimm árin, sbr. þá ríkisfjármálaáætlun sem hún lagði fram og fékk samþykkta með minnsta mögulegum mun, 32 atkvæðum gegn 31.

Skýrir kostir í boði

Valkostirnir liggja því býsna skýrt fyrir. Óbreytt hægri stefna áfram í boði þeirra sem fyrir henni standa eða sú samfélagslega uppbygging og fjárfesting í framtíðinni sem við Vinstri græn gerum nú að algjörri þungamiðju okkar kosningabaráttu. Og það árar vel og aðstæður eru hagstæðar til að hefjast handa. Staða ríkissjóðs er rúm og arður í vændum út úr bönkum og orkufyrirtækjum sem gera það að verkum að minni viðbótar tekjuöflun þarf til en ella. Þeirra er auðvelt að afla með sanngjörnum og réttlátum hætti og án þess að allt almennt launafólk þurfi að taka hækkanir á sig. Frekar er aðgerða þörf til að létta sköttum af lægri og meðal launum en hitt.

Við Vinstri græn göngum bjartsýn til þessara kosninga. Katrín Jakobsdóttir býður fram krafta sína til að verða næsti forsætisráðherra Íslands og talar skýrt í þeim efnum. Þeim mun betri kosningu sem Vinstrihreyfingin grænt framboð fær um allt land og Katrín með því öflugra umboð, þeim mun meiri líkur eru á það takist. Og það verður að takast, við megum ekki missa fleiri ár til spillis. Gleðilegar kosningar og tökum öll þátt, tökum höndum saman, fyrir framtíðina. Gerum betur.

Steingrímur J. Sigfússon. Höf. skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna.

Birtist fyrst í Akureyri vikublað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Samfylkingin og Viðreisn á flugi í nýrri skoðanakönnun – málþófsminnihlutanum refsað

Orðið á götunni: Samfylkingin og Viðreisn á flugi í nýrri skoðanakönnun – málþófsminnihlutanum refsað
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Lánlítil stjórnarandstaða – ætlar aftur í slag gegn þjóðinni

Orðið á götunni: Lánlítil stjórnarandstaða – ætlar aftur í slag gegn þjóðinni