fbpx
Miðvikudagur 30.júlí 2025
Eyjan

Sagan, fyrirliðarnir, lukkudýrin og brjálaðar stuðningsmannasveitir

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Laugardaginn 28. október 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um helgina verður gengið til kosninga eftir stutta kosningabaráttu sem hlýtur að teljast frekar óeftirminnileg. Til gamans tók DV saman stutta yfirferð um sögu liðanna, gengi þeirra í kosningum og könnunum, lukkudýrin, stuðningsmannasveitirnar og vonarstjörnurnar. Aðeins var miðað við þá flokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum.

Sjálfstæðisflokkurinn

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í Eyjunni.

Heimavöllur: Valhöll
Saga liðsins: Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður þann 25. maí 1929 með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslyndaflokksins. Óumdeilt er að liðið er hið sigursælasta í sögu þjóðarinnar.
Sæti í síðustu kosningum: 1. Sæti – 29% fylgi.
Gengi í spám: Sveiflast milli 1.–2. sætis.
Fyrirliði: Bjarni Benediktsson. Hann hefur verið fyrirliði síðan í mars 2009 þegar Geir H. Haarde steig til hliðar. Enginn efast um hæfileika Bjarna á hinum pólitíska velli. Hann hefur hins vegar þurft að glíma við smávægileg meiðsl allan sinn feril sem hann hefur þó náð að hrista af sér með hörkunni. Hann er lykilmaður í sókn og vörn Sjálfstæðisflokksins og tók nýlega við nýju hlutverki sem spilandi þjálfari.
Þjálfari: Bjarni Benediktsson. Þegar hann talar þá hlusta aðrir liðsmenn.
Hryggjarstykkin í liðinu: Guðlaugur Þór Þórðarson, Kristján Þór Júlíusson, Sigríður Á. Andersen, Haraldur Benediktsson og Páll Magnússon.
Stuðningsmannasveitin: Ránfuglarnir – fá nóg að borða.
Lukkudýr: Hannes Hólmsteinn Gissurarson.
Yngri flokkar: Samband ungra Sjálfstæðismanna. Sjálfstæðisflokkurinn er þekktur fyrir öflugt ungliðastarf.
Vonarstjarnan: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Varaformaðurinn ungi er lykilmaður innan flokksins og streymir upplýsingum um völlinn endilangan. Ráðherraembætti blasir við að loknum kosningum sem og formannssætið þegar hinn meiðslahrjáði fyrirliði stígur til hliðar.

Vinstri græn

Heimavöllur: Rauða torgið
Saga liðsins: Vinstri hreyfingin – grænt framboð var stofnuð þann 6. febrúar 1999. Flokkurinn hefur iðulega verið með fylgi á milli 9–14% í alþingiskosningum ef undan er skilinn stórsigurinn árið 2009 þegar flokkurinn hlaut 22% fylgi. Nú blasir við stærsti sigurinn frá upphafi vega.
Sæti í síðustu kosningum: 2. sæti – 15,9% fylgi.
Gengi í kosningaspám: Sveiflast milli 1.–2. sætis.
Fyrirliði: Katrín Jakobsdóttir. Enginn íslenskur stjórnmálamaður kemst í hálfkvisti við kjörþokka Katrínar. Hún er alþýðleg og kemur vel fyrir í hvívetna. Hún hefur að mestu sloppið við að vera miðpunkturinn í óvinsælum málum sem geta reynt á.
Spilandi þjálfari: Steingrímur J. Sigfússon. Einn af stofnendum flokksins og þaulsætnasti þingmaður þjóðarinnar. Minnir um margt á Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal. Langur og farsæll ferill, einstaka titlar og ef eitthvað fer úrskeiðis þá er það einhverjum öðrum að kenna.
Lukkudýr: Álfheiður Ingadóttir.
Hryggjarstykkin: Svandís Svavarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Stuðningsmannasveitin: Villikettirnir – óalandi og ósmalandi.
Yngri flokkar: Ung vinstri græn. Reið og róttæk.
Vonarstjarnan: Steingrímur J. Sigfússon. Hefur öðlast dýrmæta reynslu undanfarin ár sem mun reynast honum dýrmæt næstu áratugina í eldlínu stjórnmálanna.

Framsóknarflokkurinn

Heimavöllur: Bændahöllin.
Saga flokksins: Framsóknarflokkurinn var stofnaður í lok árs 1916. Flokkurinn fékk yfirleitt um 25% fylgi, með örfáum undantekningum, allt til ársins 1979. Síðan fór að halla undan fæti .
Sæti í síðustu kosningum: 4. sæti – 11,5% fylgi.
Gengi í spám: 6. sæti.
Fyrirliði: Lilja Alfreðsdóttir er óopinber fyrirliði flokksins enda með áberandi mesta kjörþokkann og gott orðspor. Flokkurinn þarf öfluga frammistöðu hjá henni á lokametrunum til þess að forðast fall undir 10% múrinn í fyrsta skipti í sögunni.
Þjálfari: Sigurður Ingi Jóhannsson. Ekki þarf að koma á óvart að formaðurinn er lykilmaðurinn á bak við tjöldin.
Lukkudýr: Guðni Ágústsson.
Hryggjarstykkin: Ásmundur Einar Daðason og Willum Þór Þórsson.
Stuðningsmannasveitin: Rollurnar – jarma með sjarma.
Yngri flokkar: Samband ungra framsóknarmanna er víst til.
Vonarstjarnan: Lilja Alfreðsdóttir. Fékk eldskírn sem utanríkisráðherra í stutta stund og virðist vaxa við hverja raun. Það blasir við að hún er framtíðarleiðtogi Framsóknarflokksins og væntingarnar eru miklar.

Píratar

Heimavöllur: Tortuga.
Saga flokksins: Stjórnmálaflokkur Pírata var stofnaður árið 2012. Í fyrstu alþingiskosningunum hlaut flokkurinn 5,1% fylgi og fékk þrjá menn kjörna. Flokkurinn hlaut gríðarlegan meðbyr í kjölfar Panama-hneykslisins og mældist á einum tímapunkti með 43% fylgi. Fylgi flokksins hefur hrapað síðan og hann mælist nú með um 10% fylgi í könnunum.
Sæti í síðustu kosningum: 3. sæti – 14,5% fylgi.
Gengi í spám: 5. sæti
Fyrirliði: Helgi Hrafn Gunnarsson. Eftir eins árs útlegð sneri Helgi Hrafn aftur út á völlinn og er þegar orðinn lykilmaður liðsins í vörn og sókn.
Þjálfari: Birgitta Jónsdóttir. Skipti nýlega sjálfri sér út af vellinum en stendur nú á hliðarlínunni og fylgist vel með öllu sem fram fer. Það má búast við því að hún taki skóna af hillunni ef óvæntur ráðherrastóll býðst.
Lukkudýr: Svanur Kristjánsson.
Hryggjarstykkin í liðinu: Smári McCarthy, Jón Þór Ólafsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Stuðningsmannasveitin: Skakki turninn.
Yngri flokkar: UP – Ungir Píratar.
Vonarstjarnan**: Sara Elísa Óskarsson. Situr í fjórða sæti á framboðslista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður. Verður sífellt meira áberandi í starfi flokksins og mun láta meira til sín taka í framtíðinni.

Samfylkingin

Heimavöllur: Ráðhús Reykjavíkur.
Saga flokksins: Flokkurinn var stofnaður árið 2000 við samruna fjögurra flokka. Ætlunin var að vinna sem mótvægisafl gegn Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hefur í gegnum tíðina almennt verið næststærsti flokkur landsins ef undan er skilin fullkomin útreið í síðustu alþingiskosningum.
Sæti í síðustu kosningum: 7. sæti – 5,7% fylgi.
Gengi í spám: 4. sæti.
Fyrirliði: Logi Einarsson. Akureyringurinn knái hefur með þunga skriðjökulsins rifið fylgi Samfylkingarinnar upp undanfarin misseri. Hann hefur verið fyndinn, stokkið á pólitísk tækifæri en einnig verið mjög reiður á köflum.
Þjálfari: Oddný G. Harðardóttir. Tókst á við þá niðurlægingu að missa forystustólinn til Loga af stakri reisn. Margir hefðu sagt af sér alfarið en Oddný ákvað að lúra á hliðarlínunni. Hún er reynslumikill þingmaður og miðlar eflaust óspart af henni til samherja sinna í baráttunni.
Hryggjarstykkin: Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðmundur Andri Thorsson og Helga Vala Helgadóttir.
Stuðningsmannasveitin: Fölnuð rós.
Yngri flokkar: Hallveig – Ungir Jafnaðarmenn í Reykjavík.
Vonarstjarnan: Logi Einarsson. Tók við nánast sokknu skipi en stendur nú í stafni og er langt kominn með að verða einn af sigurvegurum kosningabaráttunnar. Jafnaðarmenn vonast til að hafa fundið í honum leiðtogann sem þá hefur vantað um skeið.

Miðflokkurinn

Heimavöllur: Hrafnabjörg III.
Saga flokksins: Flokkurinn var stofnaður formlega þann 8. október 2017 fyrir atbeina Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, í kjölfar þess að hann sagði sig úr Framsóknarflokknum.
Sæti í síðustu kosningum: Tók ekki þátt
Gengi í spám: 3. sæti.
Fyrirliði: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Þjálfari: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Lukkudýr: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Stuðningsmannasveitin: Regnbogalituðu einhyrningarnir.
Yngri flokkar: Samkvæmt heimildum DV er ungliðahreyfingin: „Simma Dimma Limm“ í burðarliðnum.
Vonarstjarnan: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Björt framtíð

Heimavöllur: Tímabundið munaðarlaus eftir að Jón Gnarr sparkaði þeim út úr bílskúrnum sem flokkurinn leigði af guðföðurnum.
Saga flokksins: Björt framtíð var stofnuð árið 2012. Að stofnuninni komu Guðmundur Steingrímsson og Heiða Kristín Helgadóttir. Tæpu ári síðar sameinuðust Besti flokkurinn og Björt framtíð formlega.
Sæti í síðustu kosningum: 6. sæti – 7,2% fylgi.
Gengi í spám: 9. sæti – Að óbreyttu blasir fallið við Bjartri framtíð.
Fyrirliði: Björt Ólafsdóttir. Það gustar af ráðherranum og hún er ekki hrædd við að taka slaginn. Hún fer í taugarnar á andstæðingum en er dáð af stuðningsmönnum Bjartrar framtíðar. Eins og er eru andstæðingarnir hins vegar 98,4% af kosningabæru fólki.
Þjálfari: Óttarr Proppé. Formaður flokksins er eðlilega lykilmaður og andlit flokksins út á við. Hann er vel liðinn og málefnalegur en verður seint sakaður um að vera mjög afgerandi stjórnmálamaður.
Lukkudýr: Staðan er laus til umsóknar. Búningurinn er enn volgur eftir Gnarr.
Hryggjarstykkin: Guðlaug Kristjánsdóttir og Nichole Leigh Mosty.
Stuðningsmannasveit: Svört fortíð.
Yngri flokkar: Ekki til staðar.
Vonarstjarnan: Það er engin von.

Viðreisn

Heimavöllur: King Baudouin-leikvangurinn í Brussel.
Saga flokksins: Grunnurinn að Viðreisn var lagður strax árið 2014 en flokkurinn bauð fyrst fram í síðustu alþingiskosningum árið 2016.
Sæti í síðustu kosningum: 5. sæti – 10,5% fylgi.
Gengi í spám: 7. sæti.
Fyrirliði: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Í umdeildum formannssnúningi rétt fyrir kosningar var Þorgerði afhent fyrirliðabandið. Það er óumdeilt að Þorgerður Katrín er öflugur stjórnmálamaður en umdeild er hún.
Þjálfari: Benedikt Jóhannesson. Í kjölfarið á formannsfléttunni var hinn spilandi þjálfari tekinn af velli og er kominn í jakkafötin á hliðarlínunni. Heimildir herma að Benedikt sé búinn að missa klefann og því gæti tíðinda verið að vænta úr herbúðum Viðreisnar. Sérstaklega ef flokknum tekst ekki að forðast fall.
Lukkudýr: Þorsteinn Pálsson.
Hryggjarstykkin: Þorsteinn Víglundsson og Hanna Katrín Friðriksson.
Stuðningsmannasveit: Mótvindur.
Yngri flokkar: Ekki til staðar.
Vonarstjarnan: Gylfi Ólafsson. Var aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra á örkjörtímabilinu. Hann náði ekki kjöri í Norðvesturkjördæmi í síðustu tilraun en reynir nú í annað sinn. Eitthvað sér Benedikt í Gylfa.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

Flokkur fólksins

Heimavöllur: Breiðholt, eða kannski Norðlingaholt.
Saga flokksins: Byrjaði sem frábær hugmynd Ingu Sæland. Flokkurinn hlaut ekki brautargengi í síðustu alþingiskosningum en komst á fjárlög og þar með fór starfið á flug. Nú vonast flokkurinn til þess að komast með fótinn inn fyrir dyrnar.
Sæti í síðustu kosningum: 8. sæti – 3,5% fylgi.
Gengi í spám: 8. sæti.
Fyrirliði: Inga Sæland. Hún er flokkurinn og flokkurinn er hún.
Þjálfari: Inga Sæland – hún hefur sýnina og aðrir flokksmenn fylgja.
Lukkudýr: Ásgerður Jóna Flosadóttir.
Hryggjarstykkin: Ólafur Ísleifsson, Magnús Þór Hafsteinsson og Karl Gauti Hjaltason.
Stuðningsmannasveit: Öreigarnir.
Yngri flokkar: Ekki til staðar.
Vonarstjarnan: Inga Sæland. Reynir öðru sinni við Alþingi og leggur allt undir. Þarf að ná árangri núna eða aldrei.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Greinir heimsókn Ursulu von der Leyen og spyr hvað stjórnarandstaðan óttist

Greinir heimsókn Ursulu von der Leyen og spyr hvað stjórnarandstaðan óttist
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Lánlítil stjórnarandstaða – ætlar aftur í slag gegn þjóðinni

Orðið á götunni: Lánlítil stjórnarandstaða – ætlar aftur í slag gegn þjóðinni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Brynhildur Guðmundsdóttir tekur við sem forstjóri Daga hf.

Brynhildur Guðmundsdóttir tekur við sem forstjóri Daga hf.
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?