„Nú eru aðstæður þannig, margir litlir flokkar, að þetta er flóknara en verið hefur. Ég held að það megi alveg eins búast við flókinni samningalotu nú eftir kosningar,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Kosið er til Alþingis í dag og segist Gunnar Helgi eiga von á því að stjórnarmyndunarviðræður eftir kosningar gætu orðið flóknar. Sjálfstæðisflokkur hefur mælst með mest fylgi í skoðanakönnunum að undanförnu en Vinstri græn hafa fylgt skammt á eftir. Samfylkingin hefur verið þriðji stærsti flokkurinn en síðan hafa fjórir flokkar mælst með fylgi á bilinu 8 til 10 prósent; Miðflokkurinn, Píratar, Framsóknarflokkurinn og Viðreisn.
Gunnar Helgi bendir á að venjan sé sú að sá flokkur sem fær mest fylgi fái stjórnarmyndunarumboð. Það hafi þó ekki verið þannig eftir kosningarnar 2013 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, fékk umboðið. Þá mat forsetinn það svo að Framsóknarflokkurinn hefði unnið stærsta sigurinn þó Sjálfstæðisflokkur hefði fengið meira fylgi.
„Ólafur Ragnar mat það svo að Sigmundur hefði unnið mesta sigurinn og fól honum umboðið. Það er forsetans að meta stöðuna. Við erum með óvenjulegt fyrirkomulag hvað það varðar. Venjulega er þjóðhöfðingi ekki svo virkur heldur skipar svokallaðan „informateur“ og kemur ekki sjálfur á virkan hátt að málum,“ segir Ólafur sem bætir við að forseti ræði við leiðtoga þingflokkanna strax eftir kosningar. Þeir fundir fari vanalega fram á sunnudeginum eða mánudeginum eftir kosningar.