fbpx
Fimmtudagur 31.júlí 2025
Eyjan

Að bera ábyrgð á sjálfum sér

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 28. október 2017 10:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnaldur Máni Finnsson ritstjóri Austurlands.

Það fer ekki framhjá nokkrum lesanda að kosningar eru á næsta leiti. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er ábyrgðinni á að vera þáttakandi í lýðræðislegu þjóðfélagi varpað á okkur næsta laugardag, að safna saman rökum þeirra sem eru í forsvari fyrir stjórnmálahreyfingar og gera upp við okkur hverjum við treystum til að vera fulltrúar okkar á löggjafarsamkundu þjóðarinnar, Alþingi. Valið er kannski ekki auðvelt, en samvisku okkar vegna er nauðsynlegt að hver og einn nýti rétt sinn til að hafa áhrif á þetta val. Annars sitjum við uppi með þá skömm að hafa vanvirt sjálf okkur með þeim hætti að gera sjálf okkur að þolendum í þjóðfélagi sem byggir á því að hver og einn taki ábyrgð á sjálfum sér. Hver og einn getur haldið því fram að atkvæði hans skipti litlu þegar á heildina er litið, að enginn einn einstaklingur eigi það undir nennu hans sjálfs til að setja sig inn í málefnin, að hann komist eða komist ekki í þær aðstæður að hafa áhrif á framvindu og þróun þjóðfélagsgerðarinnar fyrir –hans hönd, en sú staðreynd er ekki úrslitaatriði í því hvort þú, lesandi góður, ættir að gera þér ferð á kjörstað. Þetta snýst um þig sjálfan. Að vera þáttakandi en ekki þolandi í þjóðfélaginu.

Á dögunum fékk ég það hlutverk að kynna fyrir nemendum mínum þetta grunnatriði í því að vera þjóðfélagsþegn og má það vera málum blandið hvað unglingar taka slíkri uppfræðslu alvarlega. Það er allskyns sem er látið flakka þegar maður þarf ekki í raun og veru að standa með vali sínu, eins og í tilviki þeirra. En um leið áttu þau að skila örlítilli greinargerð um hugtakið visku. Það var öllu fróðlegra að komast að því hvað unglingarnir töldu vera grundvöll viskunnar – en í grófum dráttum má segja að niðurstaðan hafi verið sú að þegar reynsla og skynsemi væru samankomin, þá mætti gera ráð fyrir því að hver sá sem mætti áskorunum í lífinu sem krefð- ust visku, leysti vandann með einhverskonar hyggindum sem kæmu flestum til góða. Gáfur – eða það magn upplýsinga sem einhver byggi yfir – væru ekki marktækar nema þær raungerð- ust í því að hyggjuvitinu væri beitt með hliðsjón af því hvort þær bættu núverandi ástand, eða gögnuðust manni á einhvern hátt persónulega. Án þess að fara útí það nákvæmlega hvaða stjórnmálamönnum eða stefnum unglingarnir treystu fyrir velferð sinni, þá var það að minnsta kosti lærdómurinn sem ég dró af þessari „kosningasenu“ í skólanum sá að jafnvel 15 ára unglingum er ekki sama um það hvort val þeirra leiddi af sér takmörkun möguleika þeirra eða hvort val þeirra gæti haft áhrif á það í hvaða átt líf þeirra sjálfra stefndi. Það sem er merkilegt við þann lærdóm er að við fullorðna fólkið látum oft eins og við séum áhrifalaus í því hvernig samfélagið okkar er uppbyggt. Allavega látum við stundum eins og það sé búið að ákveða það hvaða rammi afmarkar frelsi okkar og hvaða takmörkunum það er háð að við getum verið gerendur í lífum okkar.

Við skulum minnast þess heilshugar að litlar þúfur geta velt þungu hlassi, eins og sást á því hver örlög síðustu ríkisstjórnar urðu. Og þó við verð- um kannski seint hluti af því samhengi sem við skynjum að stýri orðræðu samfélagins eða leggi línuna um það hvað þurfi að gerast til að hamingja sem flestra sé hámörkuð, þá ber okkur samt sem áður með ráðum og dáð að vera meðvituð um hlut okkar í því að móta samfélagið út frá okkar eigin hugmyndum um réttlæti, jöfnuð og velferð. Við þurfum ekki að hvíla í vananum eða hugmyndum foreldra okkar um leiðina að settu marki, til þess að finna á eigin skinni að það er samviska okkar fyrst og síðast, sem ræður því hvar við setjum exið á laugardaginn.

Við getum orðið upptekin við að máta atkvæði okkar við orðræðu flokkanna, meta það hvort að þessi eða hinn ætti að hljóta brautargengi með hliðsjón af hæfileikum sínum. En um leið þá verð- ur þetta alltaf fyrst og síðast persónuleg stund í kjörklefanum sem engu okkar ber að deila með öðrum og er aðeins háð samvisku okkar og sannfæringu.

Það eru lykilhugtök í hinu upplýsta samfélagi okkar, að við höfum persónulegan og heilagan rétt til þess að móta framtíð okkar í gegnum val á fulltrúum á löggjafarsamkunduna. Þann rétt má þakka stóru samhengi sem teygir sig aftur einar fimm aldir og kallast í daglegu tali siðbót. Á þeim tímamótum sem í hönd fara í næstu viku, þegar siðbótarafmælis verður minnst, er vert að við geta skoðað hug sinn og afstöðu útfrá upplýstum við- miðum en ekki aðeins vana. Og þá þarf hver og einn að hafa kjark til að geta fyllt út í auða reitinn byggt á þekkingu, reynslu og virðingu mun frekar en að afstaða manns verði túlkuð sem viðbragð vanans við áreiti.

Það er nefnilega þannig að það er sannur heigulsháttur að varpa af sér ábyrgð með því að benda á einhvern annan og segja að hann beri ábyrgð á því hvernig „allt er“. Við berum ábyrgð á okkur sjálfum og því að sýna virðingu í samskiptum og tengslamyndun; því annars fer illa fyrir þeim vonum manns að heimurinn geti orðið að betri stað fyrir erfingja jarðarinnar. Að mæta á kjörstað er partur af þeirri viðleitni að sýna stjórnmálamönnunum að verk þeirra eru hluti af heildarmynd sem hefur áhrif á okkur öll. Í því felst um leið að við getum fyrirgefið það að stjórnmálafókið er mannlegt, og að við erum öll á sama báti þó að við verðum á endanum að velja eitt framboðanna umfram annað.

Arnaldur Máni Finnsson, ritstjóri Austurlands

 

Birtist fyrst í Austurlandi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Samfylkingin og Viðreisn á flugi í nýrri skoðanakönnun – málþófsminnihlutanum refsað

Orðið á götunni: Samfylkingin og Viðreisn á flugi í nýrri skoðanakönnun – málþófsminnihlutanum refsað
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Lánlítil stjórnarandstaða – ætlar aftur í slag gegn þjóðinni

Orðið á götunni: Lánlítil stjórnarandstaða – ætlar aftur í slag gegn þjóðinni