Eyjan hefur boðið framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum á morgun, laugardaginn 28. október, að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá heilbrigðismálum til sjávarútvegsmála. Öll svör flokkanna má sjá neðst.
Í dag er spurt:
Hvað, ef eitthvað, hyggst þinn flokkur gera hvað varðar uppreist æru?
Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.
Björt framtíð sleit samstarfi sínu í ríkisstjórn Íslands vegna vinnubragða samstarfsflokksins í málum tengdum afgreiðslu umsókna um uppreista æru þegar ljóst var að leyndarhyggja leiddi til þess að lögboðinni upplýsingagjöf til brotaþola hafði ekki verið sinnt. Með því hafði eitt grunngilda Bjartrar framtíðar, traust, verið þverbrotið. Brotið var fólgið í því að tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins höfðu tekið hagsmuni Sjálfstæðisflokksins fram yfir almannahag.
Þannig axlaði Björt framtíð ábyrgð á þátttöku sinni í ríkisstjórnarsamstarfinu og gekk af staðfestu og hugrekki frá góðum verkefnum sem flokkurinn hefði helst af öllu viljað halda áfram með. Það varð hins vegar ekki gert á grundvelli skorts á siðferði samstarfsflokksins. Nú hafa ákvæði um uppreist æru verið fjarlægð úr almennum hegningarlögum.
Hvað tekur við þarfnast skoðunar því við verðum að trúa því líka að fólk verði að fá annað tækifæri í lífinu. Fara þarf fram þverpólitískt mat með aðkomu fagmanna á því. Til greina kæmi að undanskilja ákveðna brotaflokka þegar ákveðið verður hverjir geti sótt um endurheimt borgaralegra réttinda sem þeir hafa glatað vegna afbrota, gera frekari kröfur um skilyrði sem þarf að uppfylla til að geta sótt um endurheimt slíkra réttindi eða eftir atvikum að fara aðrar leiðir til að tryggja hagsmuni heildarinnar, brotaþola en á sama tíma að tryggja hagsmuni brotamanna sem sannanlega hafa bætt ráð sitt.
Stefna Viðreisnar er að ljúka tafarlaust endurskoðun allra laga sem gera óflekkað mannorð að skilyrði fyrir ýmsum borgaralegum réttindum. Viðreisn beitti sér fyrir því að setja inn sólarlagsákvæði í frumvarp til laga um breytingu á alemnnum hegningarlögum, þar sem ákvæði um uppreist æru vöru felld úr gildi. Viðreisn er sammála því að uppreist æru sé gamaldags og úrelt hugtak sem ekki sé þörf á kveða sérstaklega á um í lögum.
Hins vegar er brýnt að ljúka ofangreindri endurskoðun eins fljótt og hægt er, enda hefur lagabreytingin sem samþykkt var í haust í för með sér að tiltekinn hópur fólks nýtur ekki borgaralegra réttinda.
Endurskoðun þarf jafnframt að snúa að því hvernig skilyrði setja eigi fyrir einstaka starfsréttindum, svo sem réttindum til lögmannsstarfa, starfa sem snúa að börnum og umönnun fólks. Eðlilegt er að líta svo á að einstaklingar geti fyrirgert rétti sínum til ákveðinna athafna hafi þeir gerst sekir um tiltekin alvarleg afbrot. Allar slíkar takmarkanir þarf hins vegar að skilgreina vandlega og af yfirvegun.
Við endurskoðun á lögum um uppreist æru mun kristallast hið vandasama hlutverk löggjafans að vega og meta rétt einstaklinga sem framið hafa refsiverðan verknað til atvinnufrelsis gagnvart almannahagsmuna um að takmarka aðgengi einstaklinga að ábyrgðarstöðum vegna afbrota þeirra. Erfitt getur verið að finna hinn gullna meðalveg, sem tryggir atvinnufrelsi afbrotamanna en verndar einnig hagsmuni almennings.
Búið að fjarlægja úr hegningarlögum
Alls eru um þrjátíu lagaákvæði sem krefjast „óflekkaðs mannorðs“ í íslenskum lögum í dag. Þar ber fyrst að nefna núgildandi stjórnarskrá Íslands sem gerir kröfu um óflekkað mannorð til þess að einstaklingar séu kjörgengir til þingsetu. Tvær starfsstéttir krefjast óflekkaðs mannorðs til veitingar starfsréttinda en þær eru endurskoðendur og lögmenn. Þar að auki má finna í lögum um ýmsar stöður á vegum hins opinbera þá kröfu að skilyrði fyrir veitingu stöðunnar sé að viðkomandi sé með óflekkað mannorð. Flestar eru þetta stöður eins og seta í ráðum, stjórnum og nefndum á vegum hins opinbera sem fela í sér ráðstöfum fjármuna á einn eða annan hátt. Mikilvægt er að endurskoða þessar áherslur löggjafans í ljósi breyttra tíma þar sem vald eða ábyrgðarstaða yfir peningum er einungis ein hlið þeirra hagsmuna sem hið opinbera þarf að gæta í stöðuveitingum; vald eða ábyrgð gagnvart börnum, fötluðu fólki eða öðrum í viðkvæmri stöðu er ekki síður mikilvæg í þessu samhengi.
Þar sem Alþingi hefur nú þegar fjarlægt ákvæði um veitingu uppreistar æru úr almennum hegningarlögum er fyrsta skrefið að nauðsynlegri endurskoðun þessa úrelta fyrirkomulags komið í höfn. Eftir stendur að eðlilegt er að gera kröfur um að einstaklingar sem gegna ábyrgðarstöðum fyrir hið opinbera hafi ekki framið refsivert athæfi eða brotið alvarlega af sér í starfi. Aftur á móti er einnig mikilvægt að einstaklingar sem brotið hafa af sér geti fengið rétt til þess að sinna ábyrgðarstöðum fyrir hið opinbera að lokinni afplánun undir vissum skilyrðum.
Verndum börn og þolendur kynferðisofbeldis
Heildarendurskoðun laga er snúa að starfsréttindum og skilyrðum fyrir hvers kyns stöðuveitingum á vegum hins opinbera er nauðsynleg og brýn. Fyrsta skrefið er að öryggi barna sé tryggt. Lög um óflekkað mannorð ná almennt ekki yfir þær miklu ábyrgðarstöðu að sinna eða þjónusta börn en augljóst er að einstaklingar sem dæmdir hafa verið fyrir alvarlegt ofbeldi, kynferðisbrot gegn börnum og kynferðisbrot ættu ekki að starfa með börnum. Alþingi ætti því að forgangsraða lögum sem vernda réttindi barna og hefja vinnu við þau strax að loknum kosningum.
Eins er brýnt að endurskoða lögin sem gilda um starfsréttindi starfsstéttanna sem hafa óflekkað mannorð að skilyrði, þ.e.a.s. lögmannsréttindi og starfsréttindi endurskoðenda. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, lagði fram frumvarp þess efnis að einstaklingar sem dæmdir hefðu verið fyrir kynferðisbrot gegn börnum, nauðgun og manndráp ættu þess ekki kost að hljóta lögmannsréttindi. Staða lögmanns er forréttindastaða sem felur í sér margþætt vald og ábyrgð. Lögmenn geta verið viðstaddir skýrslutöku í Barnahúsi, þeir hafa aðgang að gögnum í forsjármálum og geta innheimt skuldir án sérstaks leyfis frá hinu opinbera. Allt veitir þetta lögmönnum vald og forréttindi umfram hinn almenna borgara. Núverandi lagarammi kemur ekki í veg fyrir að einstaklingar sem hafa brotið á börnum og hafa fengið uppreist æru, geti fengið lögmannsréttindi. Þessu þarf að breyta eins fljótt og auðið er og mun Þórhildur leggja frumvarpið fram að nýju að afstöðnum kosningum, hljóti hún brautargengi kjósenda.
Sveitarstjórnarkosningar eru á næsta leiti og því liggur á að endurskoða lög um kjörgengi til þeirra. Með afnámi ákvæða um veitingu uppreistar æru fyrirfinnst ekkert ferli í íslenskum lögum fyrir einstaklinga sem brotið hafa af sér og misst þannig kjörgengi sitt til kosninga, til þess að sækjast eftir þessum lýðræðislega rétti sínum að nýju. Alþingi verður því að forgangsraða lagabreytingu um kjörgengi til þess að hindra sem minnst lýðræðislegan rétt Íslendinga til þess að bjóða sig fram til setu í sveitar- eða borgarstjórnar.
Vélræn meðferð umsókna afnumin
Píratar styðja betrunarstefnu og vilja að þeir sem brotið hafa af sér eigi leið inn í fulla þátttöku í samfélaginu að nýju. Að því marki er mikilvægt að allar takmarkanir á stöðuveitingum vegna afbrota séu skilyrðum háðar. Setja mætti tímamörk sem hefðu lok afplánunar að byrjunarpunkti þar sem viðkomandi gæti sóst efir starfsréttindum eða kjörgengi að ákveðnum tíma liðnum og ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Mikilvægt er að hvert mál sé skoðað sérstaklega með hagsmuni brotaþola, brotamanns og samfélagsins alls í huga. Ekki dugar lengur að viðhalda þeirri meðferð sem verið hefur að um vélræna meðferð umsókna sé að ræða þar sem enginn legur mat á hvort að viðkomandi einstaklingur hafi hætt afbrotum, sé treystandi fyrir ábyrgðarstöðum eða geti tekist á við full réttindi sem borgari að nýju.
Okkur finnst sjálfsagt að menn geti fyrirgert æru sinni með verkum sínum. Alvöru æru er auðvitað ekki hægt að reisa upp með stjórnvaldsákvörðun. Hvað varðar endurheimt réttinda eins og kjörgengis eða lögmannsréttinda, þá verður það bara að fara eftir eðli glæpsins. Og sumir glæpir ættu að fyrirgera leyfi fólks til að t.d. starfa með börnum eða starfa sem prestar. Alþýðufylkingin er ekki með skýrt mótaða stefnu um hvernig þetta ætti að vera útfært.