Sjálfstæðisflokkurinn fengi rúm 24 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga í dag. Þetta er samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Kosið verður á laugardag.
Vinstri græn hafa í undanförnum könnunum dansað í kringum 20 prósentin og eru áfram á svipuðum slóðum í könnun Fréttablaðsins. Flokkurinn fengi rúm 19 prósent atkvæða. Þar á eftir koma Samfylking (14,3%), Miðflokkurinn (9,6%), Píratar (9,4%), Viðreisn (7,5%), Framsóknarflokkur (6,2%) og Flokkur fólksins (4,4%). Björt framtíð mælist svo með 1,9 prósenta fylgi.
Í umfjöllun um könnunina í Fréttablaðinu kemur fram að verði niðurstaðan á þessa leið verði ómögulegt að mynda þriggja flokka stjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn fengju samtals 31 þingmann en til að fá meirihluta þarf 32 þingmenn. Hins vegar væri hægt að mynda fjögurra flokka stjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokksins.