Spurningar um Vestfirði vegna Alþingiskosninganna 2017, sem sendar voru öllum forsvarsmönnum framboða í Norðvesturkjördæmi.
Tilefni: Skýrsla Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutans 2008 – 2015. Útg. ágúst 2017.
Upplýsingar sem fram koma í skýrslunni:
Hagvöxtur á Vestfjörðum: -6% , en +4% á landinu öllu.
Íbúaþróun: -4,6% , en +4,3% á landinu öllu.
Framleiðsla á mann: -2%, en 0% á landinu öllu. „2,7 milljónir króna á Vestfjörðum og 3,2 milljónir króna á landinu öllu.
Framleiðsla: 31% allrar framleiðslu á Vestfjörðum er í sjávarútvegi. Sjávarútvegur er 8% af framleiðslu landsins í heild.
Ársverk: 24% ársverka á Vestfjörðum er í sjávarútvegi og 2% í fiskveldi
Launatekjur á ársverk: Á Vestfjörðum voru launatekjur á ársverk að jafnaði 8% minni en að jafnaði á öllu landinu, en fyrir fáeinum áratugum voru meðaltekjur á Vestfjörðum hærri en annars staðar (bls 3).
Fiskveiðar: Laun á ársverk eru lægri í fiskveiðum á Vestfjörðum en annars staðar (bls 14).
Fjárhagsstaða fyrirtækja: Árið 2015 skulduðu útgerðir og iðnaðarfyrirtæki að jafnaði meira á Vestfjörðum en annars staðar (bls 6).
Hlutdeild Vestfjarða í atvinnugreinum: Árið 2015 var 7% af framleiðslunni í sjávarútvegi á Vestfjörðum og í ferðaþjónustu 1% ( bls 7 og bls 9, skipting þáttatekna). [Innskot ritstjóra: Hlutur Vestfirðinga í sjávarútvegi var um 16% um 1990.]
Fjármálaþjónusta og tryggingar 2015 á Vestfjörðum: aðeins ¼ af því sem umsvifin voru 2008. (bls 14).
Fasteignir á Vestfjörðum: Fasteignaverð er hvergi lægra en þar. Staðgreiðsluverð á fermetra í sérbýli var 88-89 þúsund krónur að jafnaði árið 2015, rúm 40% af landsmeðaltali.
Með vísan til ofangreindra upplýsinga er þess óskað að eftirfarandi spurningum verði svarað :
1. Hvernig hyggst þinn flokkur auka hlutdeild Vestfirðinga í sjávarútvegi og ferðaþjónustu á næsta kjörtímabili ?
Hvað varðar ferðaþjónustu þá skiptir miklu að þeirri stefnu sem hefur verið mótuð um að tryggja verði dreifingu ferðamanna um land allt yfir allt árið verði hrint í framkvæmd. Þar skiptir mestu að ráðast í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir sem því miður hafa verið látnar sitja á hakanum og aðra innviðauppbyggingu. Við höfum svo lagt fram tillögur um upptöku komugjalda sem nýtist í uppbyggingu á ferðamannastöðum og að gistináttagjöld verði hlutfallsleg og renni til sveitarfélaga. Allt myndi þetta skipta gríðarlegu máli fyrir Vestfirði sem áfangastað. Þá eru hugmyndir um þjóðgarð á hálendi Vestfjarða mjög spennandi fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Hvað varðar sjávarútveg þá höfum við talað fyrir aukinni byggðafestu innan fiskveiðistjórnunarkerfisins og þeir breytingar sem á því hafa verið gerðar, t.d. með upptöku strandveiða, voru gerðar undir okkar forystu á sínum tíma.
2. Hvernig verður hagvöxtur á Vestfjörðum aukinn a.m.k. til jafns á við hagvöxt á landinu öllu?
Til að tryggja að efnahagsleg hagsæld skili sér til allra landsmanna er mikilvægt að reka virka byggðastefnu. Hún snýst meðal annars um uppbyggingu á sviði nýsköpunar, rannsókna og menntunar á svæðum sem eru í vörn en við gerð fyrstu sóknaráætlananna var mikil áhersla heimamanna um land allt á að byggja á slíkum undirstöðum til að tryggja fjölbreytni og sjálfbært atvinnulíf. Við viljum efla sóknaráætlanir á nýjan leik en þær byggðu á þeirri grundvallarhugsun að færa ákvarðanir um uppbyggingu í hinum dreifðu byggðum í hendur heimamanna.
3. Hvernig verður unnið að því að laun á Vestfjörðum verði ekki lægri en annars staðar á landinu? Kemur þar til greina að bæta lágtekjusvæðum upp lægri tekjur með tekjujafnandi aðgerðum svo sem hærri persónuafslætti?
Vinstri-græn hafa ekki mótað slíkar tillögur í skattamálum en hafa fylgt stefnu um jöfn tækifæri um land allt sem m.a. hefur falið í sér jöfnun húshitunarkostnaðar og flutningskostnaðar sem var komið á í okkar tíð í ríkisstjórn. Við erum opin fyrir því að skoða skattaívilnanir sem byggjast á byggðasjónarmiðum eins og t.d. er gert í Noregi.
4. Hvaða ráðstafanir hyggst flokkurinn ráðast í til þess að hækka íbúðaverð a.m.k. til jafns á við almenna hækkun á landsvísu hverju sinni?
Til að tryggja framboð á húsnæði um land allt leggja Vinstri-græn áherslu á að Íbúðalánasjóður gegni áfram hlutverki sínu sem félagslegur íbúðalánasjóður og umgjörð um vaxtastig hans og útlánaform verði rýmkuð sem er ekki síst mikilvægt fyrir hinar dreifðu byggðir. Þá er mikilvægt að stofnframlög ríkisins inn í almenna íbúðakerfið sem samþykkt var með húsnæðislögum á Alþingi í fyrra verði tvöfölduð til að greiða fyrir uppbyggingu á leiguhúsnæði um land allt en í þeim eru ákvæði sem er sérstaklega ætlað að styðja við uppbyggingu leiguhúsnæðis á svæðum þar sem fasteignamarkaðurinn er kaldur.