Einar Kárason skrifar:
Ég hef skrifað á undanförnum dögum nokkrar greinar hér á Eyjuna sem innlegg í kosningabaráttu, og sem frambjóðandi jafnaðarmanna eðlilega beint nokkuð spjótum mínum að stærsta stjórnarflokknum, sem ber fram D-listann. Hingað til hafa Sjálfstæðismenn í engu séð ástæðu til að svara mér beint eða undir nafni, en hinsvegar hert mjög á nafnlausum áróðri sem hefur farið um samfélagsmiðla, þar sem meðal annars hefur verið snúið út úr bókakápum mínum í gegnum árin og auglýsingatextum um þær. Og eflaust hafa einhver skrímsli skemmt sér yfir því. Hef ég látið það sem vind um eyru þjóta.
Sömuleiðis grófu sömu Sjálfstæðismenn upp meira en þriggja ára ummæli sem ég lét falla á facebook, 2014 semsé. Þau voru sögð í umræðum um flugvöllinn í Vatnsmýri þegar allur þingflokkur Framsóknarmanna hafði borið fram lagafrumvarp, sem mér sem íbúa í Reykjavík þótti svívirðilegt, og gekk út á að Alþingi svipti okkur hér skipulagsvaldi um stór svæði í okkar bæjarhluta. Lét ég þá fjúka óvönduð ummæli sem miklar umræður spunnust um dagana sem í hönd fóru. Í framhaldinu fór ég í viðtöl og skrifaði fleiri pistla þar sem ég skýrði mitt mál og baðst afsökunar. Ég vissi að sumum af fjölmörgum góðvinum mínum vítt og breitt um landið höfðu sárnað hin upphaflegu orð mín, en allir tóku afsakanir til greina, og engan skugga ber á okkar vináttu síðan.
Loks stígur nú fram Sjálfstæðismaður undir nafni, og dregur þá upp þetta mál, eða Njáll Trausti Friðbertsson frambjóðandi í Norðausturkjördæmi. Og að sjálfsögðu er í hans skrifum með öllu látið ósagt í hvaða samhengi orðin féllu, hvað var sagt á undan og hvað fór á eftir. Í sjálfu sér ætla ég ekki núna að fara að munnhöggvast við hann, aðeins furða mig á því andleysi frambjóðenda D-listans að finna ekki annað tilefni til rifrildis en löngu útrætt mál. Þeir kveinka sér mjög yfir því að verið sé að ræða gamlar fréttir um þeirra formann, en munurinn er sá að sumt af því sem nú er dregið upp um hans mál hefur aldrei heyrst áður. Um þetta mál sem mig snertir er hinsvegar allt fyrir löngu útrætt.
Maður hefur hinsvegar áttað sig á því að einhversstaðar í skúmaskotum eru menn á vegum þessa þaulsætna valdaflokks sem þefa uppi og halda spjaldskrá um ýmislegt sem þegnar landsins láta fjúka hér og þar, í því skyni að geta notað það kannski einhverjum árum seinna, ef hvarflar að sama manni að andmæla þeim í stjórnmálum. Það held ég að margt af unga fólkinu í dag sem lætur gamminn geysa á twitter og víðar eigi komandi árum eftir að fá ýmislegt rifjað upp ef það hættir sér út í pólitík. Ég held að Stasispjaldkrár Flokksins geymi flest og gleymi engu, og það er smátt sem hundstungan ekki finnur.