Ferðaþjónustan hefur verið í miklum vexti undanfarin ár eins og flestir hafa orðið varir við. Vöxturinn hefur vissulega verið meiri á sumum stöðum en öðrum og oft hefur landsbyggðin talið sig hlunnfarna í þessari miklu veislu velmegunar. Hvernig stendur á því?
Þessu er auðsvarað, hingað til hefur aðeins verið ein öflug gátt inn í landið, eftir því sem vegalengdin eykst frá SV-horninu því færri ferðamenn sjást. En hvað þarf til þess að fá stærri sneið af kökunni hingað til okkar á Norðausturland.
Tveir flugvellir tilbúnir
Svarið liggur í augum uppi, það þarf að opna aðra gátt inn í landið á öðru landsvæði. Hingað til hefur ekki verið mikill vilji til að opna á þann möguleika þó svo að innviðirnir séu ótrúlega góðir. Það eru tveir flugvellir tilbúnir Akureyri og Egilsstöðum. Það hefur því miður ríkt það sjónarmið að það vanti segla og að landsvæðið Norðausturland sé ekki nógu vel þekkt til að eyða peningum í að opna á svæðið fyrir alvöru, það er ekki víst að það seljist.
Eitt af því sem skiptir höfuðmáli fyrir ferðaþjónustu í dreifbýli er að sameina krafta sveitarfélaga og fyrirtækja til markaðssetningar með styrkjum frá ríkinu. Markaðsskrifstofa Norðurlands hefur verið í stórsókn í markaðsmálum þar sem auknir styrkir úr ýmsum áttum hafa gert skrifstofunni kleift að ná augum og eyrum erlendra aðila sem hyggjast hefja beint leiguflug í vetur og gert er ráð fyrir 14 ferðum með allt að tæplega 200 manns í hverri vél frá ýmsum stöðum í Bretlandi.
Seglar svæðisins
Eftir Brexit og styrkingu krónunnar var nánast búið að afskrifa breska markaðinn enda hefur ferð til Íslands hækkað sem nemur 35–45% fyrir Breta. Þrátt fyrir það eru á leiðinni 14 vélar eftir áramót hingað á Norðausturland með allt að 15–20% veltuaukningu í ferðaþjónustunni fyrir tímabilið janúar–febrúar 2018.
Auk þess landaði skrifstofan einni af stærri ferðasýningum Norðurlandanna, Vestnorden, með um 400–600 gesti síðar á árinu. Segir það ekki eitthvað um segla svæðisins og innviði?
Glöggt er gests augað og nú er þessi staðalímynd um seglaleysi og ónóga innviði á brott. Hingað koma 14 þotur í vetur eingöngu vegna þess að heimamenn eru búnir að vinna heimavinnuna sína og ákváðu að láta ekki aðra segja þeim hvað sé klárt og hvað ekki.
Þessu þarf að fylgja eftir
Það þarf að taka ákvörðun!
Ákvörðun um að SV-hornið taki ekki endalaust við ferðamönnum, það þarf að dreifa ferðamönnum betur um landið sem er einnig okkar besta leið til að stuðla að sjálfbærri atvinnugrein sem styður á svo margan hátt við þá byggð sem fyrir er. Eitt af höfuðmarkmiðmiðum Bjartrar framtíðar er sjálfbær þróun í hvaða formi sem hún er. Við viljum það besta sem í boði er fyrir komandi kynslóðir og ferðaþjónustan er besta verkfæri sem við sem þjóð höfum haft í höndunum til að efla landsbyggðina síðan ásetning kvótakerfisins raskaði byggðarmynstrinu verulega.
Flugþróunarsjóður
Dæmin eru fyrir framan okkur; Siglufjörður, Húsavík, Egilsstaðir, Mývatnssveit. Allir þessir staðir eiga það sameiginlegt að ferðaþjónustan hefur gert einstaklingum og fyrirtækjum kleift að byggja upp rekstur og hafa atvinnu af með góðum hliðrænum áhrifum.
Gáttina þarf að opna til að fylgja eftir því góða starfi sem hefur verið unnið.
Fyrsta skrefið er hafið en stofnaður hefur verið flugþróunarsjóður sem hefur það að markmiði að lokka flugfélög inn á svæðið með ívilnunum.
Það er þó eitt vandamál sem þarf að leysa áður en sá styrkur nýtist að fullu. Í dag er eldsneyti á flugför dýrara úti á landsbyggðinni en á SV-horninu. Þetta er vegna þess að flutningsjöfnunarkerfið nær til nánast allra þátta nema flugvélaeldsneytis og fyrir vikið kostar lítrinn á útseldu verði um 7–15% meira eftir því hvar á landinu flugvöllurinn er. Þetta étur upp þá ívilnun sem flugþróunarsjóðurinn er að leggja til. Ef það er stefna stjórnvalda að efla byggðir í landinu verður að útrýma þessari mismunun og jafna rekstrarskilyrðin fyrir okkur sem þar búa.
Ef við búum ekki úti á landi, hver á þá að taka á móti ferðamönnunum?
Greinina skrifaði Hörður Finnbogason í 3. sæti hjá Bjartri framtíð í Norðausturkjördæmi.