fbpx
Þriðjudagur 29.júlí 2025
Eyjan

Áherslur flokkanna: Útlendingamál

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 26. október 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samsett mynd/Sigtryggur Ari

Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá menntamálum til heilbrigðismála.

Í dag er spurt:

Hver er stefna flokksins í útlendingamálum?

Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.

 

Björt framtíð – X-A

 

Björt framtíð leggur áherslu á að í samræmi við stjórnarsáttmála verði strax hafist handa við að einfalda veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins. Meta ber menntun þeirra sem flytjast til Íslands að verðleikum og tryggja að aðbúnaður geri landið eftirsóknarvert til framtíðar.

Mikilvægt er að standa mynduglega við barnasáttmála, mannréttindasáttmála SÞ og aðra sáttmála þegar kemur að málaflokknum. Eins að við styðjum við að Ísland taki á móti fleiri kvótaflóttamönnum og standi þannig sýna plikt sem friðsæl og rík þjóð í alþjóðasamfélaginu.Við teljum það skyldu okkar Íslendinga að taka vel á móti fólki sem leitar griðlands og alþjóðlegrar verndar utan síns heimalands vegna stríðsátaka. Björt framtíð horfir til þess mannauðs sem í flóttamönnum býr og þess virðis sem þeir geta fært íslensku samfélagi en ekki eingöngu til þess kostnaðar sem í því felst að taka á móti fólki í neyð. Móttaka flóttafólks þarf að byggja á skynsemi, yfirvegun, mannúðarsjónarmiðum og skilvirkni til að tryggja að fólk fái þá aðstoð sem til þarf til að það hafi möguleika á að koma undir sig fótunum í nýju og öruggara samfélagi.

Þingmenn Bjartrar framtíðar og flokksmenn hafa ítrekað bent á að Dyflinarreglugerðin er reglugerð sem Íslendingar eru ekki bundnir af, heldur sé um að ræða valfrjálsa notkun á henni. Það að beita henni án þess að gefa kost á efnislegri meðferð máls sé ómannúðlegt. Vegna þess styður Björt framtíð að hvert og eitt mál verði tekið til efnislegrar meðferðar til að tryggja mannúðlega meðferð, skilvirkni og tryggja að Íslendingar uppfylli siðferðilegar skuldbindingar sínar við alþjóðasamfélagið.

Eitt af því sem þingmenn Bjartrar framtíðar hafa gagnrýnt eru fjárveitingar á fjárlögum til málaflokksins. Þannig þurfi að auka verulega við þær til að okkur auðnist að vinna verkefnið með ásættanlegum hætti. Björt framtíð mun því beita sér fyrir því að auknu fé verði varið til málaflokksins.

Björt framtíð leggur áherslu á að taka á móti fólki sem býr við erfiðastar aðstæður, ekki síst konum og börnum. Þeir hópar koma gjarnan frá Sýrlandi og nærliggjandi löndum þar sem stríðsástand er alvarlegast. Með því útilokum við þó enga hópa en teljum að það sé brýnt að horfa sérstaklega til þessarra hópa sem minnsta björg geta sér veitt.

 

Framsóknarflokkurinn – X-B

 

Framsókn vill stytta þann tíma sem tekur að meðhöndla óskir um alþjóðlega vernd

Setja þarf skýrari reglur varðandi fólk sem óskar eftir alþjóðlegri vernd. Það er ómannúðlegt að láta fólk dvelja hér í langan tíma í óvissu um framtíð sína. Setja þarf aukin kraft í meðhöndlun umsókna og aukna fjármuni til að sinna þeim sem líklega munu fá alþjóðlega vernd.

Framsókn vill efla þróunarsamvinnu og neyðaraðstoð við fólk á flótta

Framsókn vill auka framlög til neyðaraðstoðar til að aðstoða fólk sem er á flótta.

Viðreisn – X-C

 

Fólk utan EES eigi greiðari leið að vinnu og búsetu
Bæta þarf í lög ákvæðum sem heimila dvöl fólks í sjálfstæðum atvinnurekstri, vinnu fólks með starfstöðvar á internetinu og vinnu og dvöl fólks með sérhæfða þekkingu eða hæfni sem sóst er eftir. Bæta á rétt útlendinga sem stunda hér nám til að setjast hér að þegar námi lýkur.

Fræða verður innflytjendur um réttindi á vinnumarkaði
Sporna þarf við að réttur sé brotinn á innflytjendum og erlendu vinnuafli á Íslandi. Virkasta leiðin til þess er að stórauka fræðslu og upplýsingastreymi til þessa fólks og greiða aðgengi að slíkum upplýsingum á erlendum tungum.

Mannúðleg móttaka flóttamanna og hælisleitenda
Íslendingar, eins og aðrar þjóðir, bera ríka ábyrgð gagnvart flóttafólki og hælisleitendum. Taka þarf á málefnum þessa fólks með mannúð og samkennd. Stytta þarf málsmeðferðartíma eins og kostur er og auðvelda þeim sem hingað flytja að verða virkir samfélagsþegnar og laga sig að nýjum heimkynnum með námi og vinnu.

 

Sjálfstæðisflokkurinn – X-D

 

  • Aðstoð við flóttafólk leiði til tækifæra til sjálfsbjargar
  • Mannhelgi og mannréttindi í fyrirrúmi
  • Tökum vel á móti útlendingum sem hér setjast að
  • Erlendir sérfræðingar og vinnuafl bætir samkeppnisstöðu Íslands

Hafa skal mannúðarsjónarmið og skilvirkni að leiðarljósi í málefnum hælisleitenda. Jafnframt skal alltaf hafa að leiðarljósi að aðstoð við flóttamenn leiði til tækifæra til sjálfsbjargar. Ísland eins og önnur lönd tekur á móti fólki á flótta undan ofríki og stríði. Móttaka flóttafólks er sjálfsögð. Taka þarf vel á móti þeim sem leita hælis á Íslandi og eiga rétt á því að komast í skjól frá stríðsátökum og brýnni neyð. Leggja skal áherslu á að kerfið sé í stakk búið til að taka á móti fólki og vanda til verka, flóttafólki og samfélaginu til heilla.

Mikill árangur hefur náðst við styttingu málsmeðferðartíma við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd að undanförnu og við að hraða brottför þeirra sem sækja um vernd að tilhæfulausu. Margt er þó enn ógert og því er mikilvægt að hrinda í framkvæmd boðaðri vinnu dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins um þverpólitísks samráðsvettvang um útlendingalöggjöfina.

Í fjölmenningarsamfélagi er mannauður og fjölbreytt reynsla til þess fallin að auðga samskipti einstaklinga og víðsýni. Taka skal vel á móti fólki sem hingað vill flytja og tryggja að það njóti jafnra tækifæra á við aðra.

Einfalda þarf veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan EES, meta menntun þeirra sem hingað leita að verðleikum og tryggja að aðbúnaður á Íslandi geri landið eftirsóknarvert til framtíðar.

Á Íslandi er fjöldi fyrirtækja sem hefur þörf fyrir aðgengi að sérhæfðu erlendu starfsfólki. Ísland er og á að vera opið fyrir erlendum ríkisborgurum sem koma hingað í atvinnuleit. Með því að nýta mannauð, þekkingu og reynslu þeirra sem vilja búa hér á landi og starfa er samkeppnishæfni landsins betur tryggð.

Við þurfum að laða til landsins erlenda sérfræðinga sem miðla þekkingu sinni til starfsmanna fyrirtækja og styrkja stöðu þeirra. Við erum fámenn en vel menntuð þjóð. Þessi gátt til landsins verður að vera opin og regluverkið má ekki vera of flókið. Þetta á fyrst og fremst við um einstaklinga frá ríkjum utan EES svæðisins.

 

Flokkur fólksins – X-F

 

Flokkurinn telur afar brýnt að innflytjendur sem setjast að hér á landi fái fulla aðstoð við að læra íslensku og stuðning til aðlögunar að þjóðfélaginu. Flokkur fólksins styður móttöku kvótaflóttafólks til landsins og leggur áherslu á góðan aðbúnað þess og aðlögun að íslensku samfélagi. Málefni hælisleitenda séu afgreidd með skilvirkum hætti að norskri fyrirmynd innan 48 klukkustunda.

 

Píratar – X-P

 

Pírat­ar vilja auka rétt­ar­vernd þeirra flótta­manna sem hingað leita í sam­ræmi við alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar Íslands. Sam­kvæmt stefnu flokks­ins um mál­efni út­lend­inga ligg­ur fyr­ir að Pírat­ar vilja auka ferðaf­relsi allra ein­stak­linga eft­ir fremsta megni, sér­stak­lega á milli þjóðríkja. Pírat­ar vilja stefna að jöfn­um tæki­fær­um, aðgengi og rétt­ind­um alls fólks með bú­setu á Íslandi. Við ósk­um þátt­töku inn­flytj­enda, flótta­manna, hæl­is­leit­anda og rík­is­fangs­lausra í mál­efn­um sem varða þá. Því vilj­um við stefna að því að sam­ræma ís­lenska inn­flytj­enda­stefnu með það að mark­miði að jafn­ræðis sé gætt gagn­vart öll­um er­lend­um rík­is­borg­ur­um, hvort sem þeir sækja um hæli eða dvöl, óháð upp­runa þeirra.

Dyflinnar-reglugerðin

Pírat­ar vilja efla og vernda ferðaf­relsi allra ein­stak­linga, líka flótta­manna, og vilja því taka ósk­ir allra um að dvelja hér á landi til skoðunar í sam­ræmi við alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar Íslands. Pírat­ar vilja efla og vernda borg­ara­rétt­indi og önn­ur mann­rétt­indi og vilja því koma í veg fyr­ir að flótta­menn á Íslandi séu send­ir til landa þar sem hætta er á að þeir verði fyr­ir pynt­ing­um eða ann­arri ómannúðlegri eða van­v­irðandi meðferð.
Píratar vilja að íslensk stjórnvöld hætti að beita fyrir sig Dyflinnarreglugerðinni til þess að skorast undan ábyrgð gagnvart móttöku flóttafólks. Við teljum að stöðva ætti endursendingar hið minnsta þar til Ísland hefur náð að taka á móti sambærilegum fjölda fólks og nágrannaríkin (miðað við höfðatölu). Nú­ver­andi fram­kvæmd ís­lenskr­ar stjórn­sýslu á end­ur­send­ing­ar­heim­ild Dyfl­inn­ar-reglu­gerðinn­ar er alls ekki alltaf í sam­ræmi við reglu­gerðina sjálfa né alþjóðleg­ar mann­rétt­inda­skuld­bind­ing­ar Íslands. Flótta­menn eru end­ur­send­ir til Ítal­íu þrátt fyr­ir mjög bág­ar aðstæður flótta­manna þar í landi. Fjöl­skyld­um er sundrað í trássi við Dyfl­inn­ar-reglu­gerðina, Flótta­manna­samn­ing Sam­einuðu þjóðanna sem og Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna. Pírat­ar eru al­farið á móti end­ur­send­ingu hæl­is­leit­enda til Grikk­lands og Ítal­íu sem og end­ur­send­ing­um sem sundra fjöl­skyld­um.

Fjöldi flóttamanna

Fyrst og fremst þurf­um við að virða alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar og vera sátt við okk­ar fram­lag til mannúðar sem þjóð. Alþjóðastofn­an­ir hafa gefið út viðmið um æski­leg­an fjölda flótta­manna sem lönd ættu að reyna taka við á ári og til þessa hef­ur Ísland alltaf verið und­ir því viðmiði. Rauði kross­inn sagði það raun­hæft að Ísland taki við nokk­ur hundruð flótta­mönn­um á ár­un­um 2016-2018. Við get­um því gert bet­ur og það án þess að fær­ast of mikið í fang. Pírat­ar munu því beita sér fyr­ir því að Ísland leggi sitt af mörk­um.

Fé til málaflokksins

Veita þarf nægt fé til tungu­mála­kennslu og áfalla­hjálp­ar fyr­ir þá sem hingað koma. Með því að stefna strax að fullri þátt­töku þeirra sem leita hingað í sam­fé­lag­inu og þá sér­stak­lega at­vinnu­líf­inu mun þó ekki þurfa eins mikla fjár­muni og sum­ir ótt­ast. Það hef­ur ekki komið til tals að auka eða minnka það fé sem lagt er í þenn­an mála­flokk. En við leggj­um áherslu á að ís­lensku­nám, áfalla­hjálp og borg­ara­rétt­indi séu tryggð.
Þeir sem eru hér nú þegar

Hver flóttamaður er mann­eskja, ein­stak­ling­ur sem nýt­ur rétt­inda rétt eins og við öll. Við ger­um ekki grein­ar­mun á flótta­fólki eft­ir upp­runa þeirra.
Hafa skal það í huga að það er já­kvætt fyr­ir okk­ur að taka á móti mann­eskj­um sem vilja koma hingað og verða part­ur af ís­lensku sam­fé­lagi. Sér­stak­lega ef þær koma hingað með mennt­un og þekk­ingu.

 

Alþýðufylkingin  – X-R

 

Alþýðufylkingin vill almennt að það sé frekar auðvelt að koma til Íslands til að búa eða vinna. Mikilvægt er að samfélagið komi til móts við sérþarfir útlendinga, m.a. með almennilegri barnakennslu í fleiri móðurmálum en íslensku, með því að meta menntun útlendinga betur svo þeir geti fengið vinnu við hæfi, og með stofnun sérstakls umboðsmanns til sem þeir geti fengið stuðning hjá vegna réttinda sinna og skyldna. Þá viljum við efla menningartengsl Íslands við lönd sem innflytjendur eru upprunnir í, sem og lönd þangað sem margir Íslendingar hafa flutt. Við leggjum mikla áherslu á að réttindi útlendinga séu virt í hvívetna á íslenskum vinnumarkaði, við viljum innleiða keðjuábyrgð á undirverktaka og við viljum stöðva starfsemi fyrirtækja sem gera út á að selja láglaunavinnu.

Hvað varðar flóttamenn, þá viljum við að þeim sé tekið sem jafningjum og í samstöðu, þannig að þeir finni að þeir séu velkomnir og að hér standi þeim til boða tækifæri til að sjá fyrir sér og sínum með vinnu. Við teljum að endurreisn velferðarkerfisins sé nauðsynlegur þáttur í því að skapa sátt um móttöku fleiri flóttamanna. Þá geta lýðskrumarar vonandi hætt að halda því fram að fátækir Íslendingar séu sviptir þá einhverju með því að taka á móti flóttamönnum.

 

Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands – X-S

 

Íslensk stjórnvöld þurfa að taka á móti fleira flóttafólki en nú er gert. Opnum faðminn, tökum á móti fleira fólki á flótta og verum almennilegt samfélag.

Samfylkingin hefur alltaf lagt áherslu á að Ísland taki á móti fleira flóttafólki. Innflytjendur og flóttafólk auðga íslenskt samfélag og menningu.

Á síðasti ári lögðum við fram tillögu að þingsályktun á Alþingi um að taka eigi á móti 500 flóttamönnum á næstu þremur árum.

Við leggjum áherslu á að:

  • Bjóða fleiri fjölskyldur frá stríðshrjáðum ríkjum velkomnar til Íslands.
  • Sameina fjölskyldur á flótta.
  • Hælisleitendum sem koma til Íslands á eigin vegum sé mætt af mannúð, tekið sé hratt á þeirra málum og börnum sé veitt sérstök þjónusta.
  • Hælisleitendur fái fljótt skorið úr sínum málum og að þeir komist fljótt á vinnumarkaðinn eða í starfstengt nám.
  • Foreldrar verði virkir þátttakendur í samfélaginu og myndi tengsl við Íslendinga.
  • Flóttafjölskyldur geti átt gott líf hér á landi.
  • Vinna gegn útbreiðslu andúðar í garð fjölmenningar.
  • Íslenskt samfélag sé alþjóðlegt og byggi á fjölbreytni og frjálsu flæði einstaklinga og fjölskyldna milli landa.

Samfylkingin leggur höfuðáherslu á uppbyggilega samræðu og fræðslu um fjölmenningarsamfélagið og gagnkvæma aðlögun, hvort sem er í skólastarfi, á vettvangi þings og sveitarstjórna eða í samfélaginu almennt. Þannig mótum við samfélag þar sem borgarar bera virðingu hver fyrir öðrum og njóta jafnréttis.

Ísland er heimili okkar allra.

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð – X-V

 

Friður á grundvelli jöfnuðar

Jöfnum kjörin

Með því að útdeila auðlindum heimsins jafnar gætu allir búið við mannsæmandi kjör. Til að jafna kjör fólks þarf róttækar breytingar á því hvernig við útdeilum völdum og gæðum milli ríkja sem innan þeirra, svo sem milli stétta, kynja, kynþátta og svo framvegis.

Kapítalismi er hvorki sjálfbær efnahagslega né umhverfislega og leiðir til samþjöppunar valda, auðs og eigna hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum sem og stórfelldrar mismununar.

Síaukinn ágangur á auðlindir jarðar og áhrif mannkynsins á loftslag hennar leiða af sér fólksflótta, misskiptingu og umhverfisvá sem stefnir lífríki jarðarinnar, vistkerfum og mannkyninu sjálfu í hættu. Gegn þessari þróun verður að sporna.

Binda þarf enda á rangláta viðskiptahætti og arðrán svo hin fátækari svæði geti brauðfætt íbúa sína án þess að ganga á gæði jarðar.

  • Ísland beiti sér gegn arðráni stórfyrirtækja á alþjóðavísu.
    • Ísland standi utan ESB.
    • Ísland beiti sér gegn múrum og girðingum milli þjóða og þjóðfélagshópa.
    • Ísland beiti sér fyrir aðgerðum gegn mansali á alþjóðavettvangi.
    • Höfnum rasisma.
    • Ísland taki forystu í umhverfismálum.
    • Ísland taki forystu í aðgerðum til að vinna gegn umhverfisvá á alþjóðavettvangi.
    • Ísland hafni þátttöku í olíuvinnslu.

 

Sjá einnig:

Þrjú helstu atriðin sem flokkurinn setur á oddinn í kosningabaráttunni

Velferðarmálin og almannatryggingar

Efnahags- og atvinnumál

Mennta- og menningarmál

Utanríkismál

Stjórnkerfið

Það sem kjósendur ættu að varast

Umhverfismál

Þarf að herða refsingar í kynferðisbrotamálum?

Samgöngumál

Á Þjóðkirkjan að vera á fjárlögum?

Stjórnarskráin

Húsnæðismál

Sjávarútvegsmál

Uppreist æra

Málefni krabbameinssjúklinga

Landbúnaðarmál

Heilbrigðismál

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Gnarr tjáir sig um besta vininn – „Vekur gjarnan aðdáun og áhuga hjá fólki“

Jón Gnarr tjáir sig um besta vininn – „Vekur gjarnan aðdáun og áhuga hjá fólki“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vilhjálmur vill vísa árásármanni Eyþórs úr landi – „Þessi framkoma gagnvart okkar friðsæla samfélagi er til skammar“

Vilhjálmur vill vísa árásármanni Eyþórs úr landi – „Þessi framkoma gagnvart okkar friðsæla samfélagi er til skammar“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Aðdáun á fornköppum

Björn Jón skrifar: Aðdáun á fornköppum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Þingmaður Sjálfstæðisflokksins erfingi milljarða og lítur niður á þá sem minna eiga

Orðið á götunni: Þingmaður Sjálfstæðisflokksins erfingi milljarða og lítur niður á þá sem minna eiga
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmar Guðmundsson: Veit ekki hvað formaður Sjálfstæðisflokksins er að fara með hótunum sínum – hér urðu valdaskipti

Sigmar Guðmundsson: Veit ekki hvað formaður Sjálfstæðisflokksins er að fara með hótunum sínum – hér urðu valdaskipti
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Tóm leiðindi

Óttar Guðmundsson skrifar: Tóm leiðindi