Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá heilbrigðismála til menntamála.
Í dag er spurt:
Hver er stefna flokksins í landbúnaðarmálum?
Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.
Björt framtíð vill halda áfram að styðja duglega við landbúnaðinn okkar en telur að við þurfum að fá meiri samfélagslegan ábata fyrir fjármagnið sem ríkið leggur til geirans. Björt framtíð vill aflæsa styrkjakerfinu. Við viljum afnema framleiðslutengingu styrkjanna en styðja þess í stað við fjölbreytta nýsköpun til sveita. Það mun toga unga fólkið aftur út í sveitirnar og styðja við fjölbreytt atvinnulíf í bland við ferðaþjónustuna og hefðbundna landbúnaðinn.
Björt framtíð vill að ábúendur á lögbýlum geti sótt um stuðning til ríkisins eftir a.m.k. þremur leiðum: í gegnum fasta árlega búsetustyrki, í gegnum styrki til fjölbreyttrar landnýtingar /landbóta (s.s. túnrækt, kornrækt, nytjaskógrækt, berjarunnar, grænmetisrækt, skjólbelti, náttúruskógar, beitarskógar, gróin beitilönd, landgræðsla, endurheimt votlendis, náttúruvernd, vernd menningarminja, uppbyggingu/ viðhalds ferðamannaleiða, viðhald menningarlandslags o.sv.fr.) og í gegnum styrki til fjölbreyttrar nýsköpunar. Bændur geta á þann hátt framleitt eins mikið og þeir vilja af hefðbundnum afurðum (kjöt og mjólk) – í takt við ástand lands og eftirspurn hverju sinni. Við viljum einnig greiða hærri landgreiðslur til þeirra sem nýta landið til framleiðslu á lífrænum afurðum.
Björt framtíð tekur undir tillögurnar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði til við forsvarsmenn sauðfjárbænda til að aðstoða sauðfjárbændur við að leysa vanda greinarinnar til framtíðar. Björt framtíð telur þó lykilatriði að taka ástand lands líka með í reikninginn. Hluti núverandi beitilanda eru óhæf til beitar og hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, þá þarf að taka á því og friða þau, a.m.k. tímabundið.
Landnýting getur haft mikil áhrif á umfang losunar frá úthaga. Íslenskar rannsóknir sýna að aðgerðir eins og þurrkun votlendis með framræslu og ósjálfbær nýting lands eru stórir losunarvaldar hérlendis. Við viljum því nýta styrkjakerfi landbúnaðarins meðal annars til að endurheimta framræst votlendi sem er ekki í landbúnaðarnotkun, draga úr losun frá landi sem er að rofna eða að hnigna um 50% (stefna að landhnignunarhlutleysi árið 2050) og auka kolefnisforða í jarðvegi og gróðri með því að fjórfalda aðgerðahraða í landgræðslu og fjölbreyttri skógrækt til 2030.
Framsókn vill leysa vanda sauðfjárbænda
Grafalvarleg staða er í sauðfjárrækt vegna 30% verðlækkunar á afurðum og lokunar markaða erlendis. Framsókn vill auka stuðning tímabundið til að hjálpa bændum að komast yfir þennan hjalla og lögleiða verkfæri til sveiflujöfnunar svo að þessi staða komi ekki upp aftur. Sauðfjárrækt er undirstaða dreifðra byggða víða um land.
Framsókn vill tryggja nýliðun, nýsköpun og vöruþróun í landbúnaði
Tryggja þarf nýsköpun og vöruþróun í landbúnaði til að fjölskyldurekstur í greininni verði hagstæður. Framsókn vill skapa aðstæður fyrir frekari framþróun við endurskoðun búvörusamninganna 2019.
Framsókn vill landbúnaðarstefnu sem tryggir stöðugleika
Gildandi búvörusamningar eiga að tryggja stöðuguleika til lengri tíma til að greinin geti fjárfest í samræmi við markmið þeirra um að efla innlenda framleiðslu, tryggja fæðuöryggi og byggðafestu í landinu.
Framsókn vill skýrar upprunamerkingar á öllum matvælum
Neytendur eiga rétt á skýrum upplýsingum um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif. Framsókn vill fylgja fast eftir reglum um upprunamerkingar og tryggja að þær nái til allra matvæla þar sem þau eru seld.
Landbúnaður verði venjuleg atvinnugrein
Landbúnaður lúti lögmálum almennrar samkeppni og sömu almenn lög gildi um hann og annan atvinnurekstur. Stuðningi við bændur á að breyta þannig að hann stuðli að aukinni hagræðingu, framleiðniaukningu og nýsköpun í greininni. Bændur eiga að fá frelsi til þess að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir og stuðla að innri samkeppni í greininni. Allri framleiðslu- og sölustýringu af hálfu ríkisvaldsins á að hætta en í staðinn verði veittir beinir styrkir til bænda í formi búsetu- og svæðisstyrkja.
Tollar og innflutningshöft á landbúnaðarvörur verði afnumin í skynsamlegum áföngum samtímis því að landbúnaðurinn stígur inn í samkeppnisumhverfi með breyttu stuðningskerfi.
Mikilvægt er að ýta undir aukna fjölbreytni og nýsköpun í landbúnaði með stuðningi við hluti á borð við skógrækt, landgræðslu, vöruþróun, lokun framræsluskurða, smávirkjanir og ferðaþjónustu. Þriggja fasa línur auka orkugæði og skapa möguleika á smávirkjunum sem væri nýr atvinnumöguleiki í sveitum.
Öflugur íslenskur landbúnaður
Landbúnaður á Íslandi er burðarás í atvinnulífi hinna dreifðu byggða í landinu og undirstaða þess að landið haldist allt í byggð. Við viljum að landbúnaðar- og byggðastefna styðji við náttúruvernd og taki mið af sögu og menningu þjóðarinnar. Tilgangurinn er að samþætta hagsmuni þéttbýlis og dreifbýlis og skapa tækifæri um allt land þannig að ungt fólk hafi raunverulegt valfrelsi um að velja sér búsetu. Starfsskilyrði greinarinnar þurfa að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar, sjálfbærni, fjölbreytileika og nýsköpunar. Virða þarf frelsi og sjálfsákvörðunarrétt íslenskra bænda og stuðla þannig að aukinni hagkvæmni og fjölbreytni. Strangar kröfur eiga að gilda um dýravelferð, hreinleika og heilbrigði. Traust umgjörð um merkingar á búvöru og rekjanleiki sameinar hagsmuni bænda og og neytenda. Sjálfstæðisflokkurinn telur að gera eigi sambærilegar kröfur um framleiðsluhætti til innfluttra búvara og gerðar eru vegna innlendrar framleiðslu. Tvíhliða samningar um gagnkvæman markaðsaðgang fyrir landbúnaðarafurðir fela í sér sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað og auka valfrelsi neytenda.
Hágæðaafurðir og ímynd landsins gefa landbúnaðinum áður óþekkt tækifæri innanlands og erlendis. Ferðamenn sem heimsækja landið sækjast eftir afurðum úr héraði og breiða út orðspor þeirra þegar heim er komið. Stefna ber að því að draga úr opinberum stuðningi við landbúnað og vinna að því að hann geti starfað á markaðs- og samkeppnisforsendum, meðal annars með því að stuðla að lækkun tilkostnaðar á öllum stigum framleiðslunnar. Nýta ber endurskoðunarákvæði búvörusamninga til að auka frelsi og svigrúm bænda til að athafna sig innan kerfisins og um leið að efla möguleika til að skjóta styrkari stoðum undir byggðirnar með verkefnum á sviði loftslagsmála, landgræðslu, endurheimt votlendis og fleira.
Flokkur fólksins leggur áherslu á þróttmikla starfsemi í landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Kappkostað verði að tryggja byggð um allt land. Sátt finnist milli framleiðenda íslenskra matvæla og neytenda þannig að báðir búi við góðan hag. Stuðlað verði að fjölbreyttari markaðssetningu afurða beint frá bændum til neytenda, t.d. með að ná fram löggiltri heimaslátrun. Aðsteðjandi fjárhagsvandi sauðfjárbænda er tímabundið vandamál sem brýnt er að leysa. Síðan verði að hefja markvissar aðgerðir í markaðsmálum sauðfjárafurða.
Píratar vilja veita bændum aukið svigrúm og frelsi til þess að ráðast í frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi og þróa vörur sínar á þann hátt sem höfðar til neytenda nútímans. Í dag þarf að eiga kvóta til að stunda hefðbundinn kúa- og kindabúskap og það er erfitt að komast inn í greinina nema með því að hafa töluvert fjármagn á bak við sig. Þessu viljum við breyta til að auðvelda nýliðun, auka sveigjanleika kerfisins og auðvelda bændum að bæta hag sinn með því að keppa á markaði á jafnræðisgrundvelli.
Við viljum ekki lækka beinan stuðning skattgreiðenda við landbúnaðinn en breyta styrkjakerfinu þannig að hann skiptist í grunnstuðning og hvatatengdan stuðning. Virkir bændur fái grunnstuðning sem verndar þá fyrir sveiflum á markaði og skapar þeim frelsi til að prófa sig áfram í nýsköpun. Til viðbótar við grunnstuðninginn viljum við að bændur fái viðbótarstuðning fyrir tiltekin skilgreind verkefni svo sem endurheimt votlendis, nýliðun og nýsköpun, skógrækt, lífræna ræktun o.fl. Þannig myndi landbúnaðurinn taka meira mið af umhverfissjónarmiðum og verða vistvænni og fjölbreyttari. Þurrkun votlendis ber ábyrgð á miklum hluta losunar gróðurhúslofttegunda hér á landi og því er nauðsynlegt að styðja við endurheimt þess.
Við viljum fella niður tolla og innflutningshömlur á matvæli í áföngum en á þann hátt að vel sé stutt við bændur í breytingunni og að hún gerist yfir tíma. Það myndi koma neytendum gríðarlega vel því við það lækkar verð viðkomandi matvara um 35% að meðaltali, sem lækkar matarútgjöld hvers neytenda um 100.000 krónur á ári. Fyrir utan það er kjötframleiðsla á landinu lítt vistvæn því sem dæmi þarf að flytja inn rúmlega tvöfalt fleiri tonn af fóðri til framleiðslu kjúklinga og svína en væri ef kjötið yrði flutt inn beint. Þessi breyting myndi einnig styrka ferðaþjónustuna um land allt sem kemur landsbyggðinni einkar vel. Í kjölfar vaxandi ferðaþjónustu skapast ný tækifæri í þróun vöru og þjónustu í hinum dreifðu byggðum.
Alþýðufylkingin vill gefa bændum kost á félagslegri fjármálaþjónustu (vaxtalausum lánum) svo þeir geti borgað land, vélar og annað án þess að þurfa að borga það margfalt, enda leggst sá kostnaður bæði á þá og neytendur — og heldur lífskjörum bænda niðri.
Við viljum að ríkið veiti sérstaka hvata til lífræns búskapar og til jarðabóta. Við viljum styðja sérstaklega við grænmetisbændur.
Við viljum rýmka reglugerðir um sláturhús, svo að það geti borgað til að reka fleiri sláturhús á landinu og draga þannig úr þörfinni fyrir langflutninga með búsmala til slátrunar.
Mikil sóknarfæri eru í landbúnaði og liggja þau m.a. í þróun matvæla, tengslum við ferðaþjónustu og ræktun landsins. Endurskoða skal búvörusamninga með það að markmiði að bæta kjör og aðstæður bænda og tryggja neytendum sanngjarnt verð og gæði. Breytingar á stoðkerfi landbúnaðar þurfa að miðast við framtíðarsýn – Samfylkingin leggur áherslu á byggðastyrki, græna styrki og nýsköpunargreiðslur.
Endurskoðun búvörusamnings
Samfylkingin er ekki sátt við gildandi búvörusamninga og sat hjá við afgreiðslu búvörulaga. Við teljum að samningstíminn eigi að vera styttri og að alþingi eigi að setja ráðherra samningsmarkið með þingsályktun. Þá telur flokkurinn að samkeppnislög ættu að gilda um mjólkuriðnaðinn og flutti tillögu um það. Markmið við endurskoðun eru að bæta kjör og aðstæður bænda og tryggja neytendum sanngjarnt verð og gæði. Það þarf að breyta stuðningi við landbúnað þannig að stærri hluti fari til bænda með byggðastyrkjum, grænum styrkjum og nýsköpunargreiðslum – í samræmi við framtíðarsýn í málefnum landbúnaðarins sem nú vantar átakanlega. Þá þarf að leggja sérstaka áherslu á lífræna framleiðslu og átak til að minnka losun.
Kominn er tími til að samkeppnislög nái til mjólkuriðnaðar, framleiðendum og neytendum til hagsbóta.
Sauðfjárbændur
Bráðavandi sauðfjárbænda verður ekki leystur nema með aðkomu almannavaldsins. Til lengri tíma verða fulltrúar bænda, neytenda og ríkisins að koma á nýrri skipan þar sem sauðfjárrækt er skipulögð þar sem hagfelldast er miðað við landgæði, og séð til þess að sauðfjárbændur njóti sanngjarnra kjara. Samfylkingin leggur áherslu á að sauðfjárbændum sé gefinn kostur á atvinnu við endurheimt landgæða þar sem þess er þörf.
Verndartollar
Verndartollar ganga gegn hagsmunum neytenda og bæta ekki hag bænda þegar allt kemur til alls. Samfylkingin vill stuðla að því að þeir hverfi í framtíðinni. Næsta skref er að semja aðgerðaáætlun með þátttöku bænda, þar sem bæði er horft til framtíðarstefnu um einstakar greinar landbúnaðar og þróunar í tollasamningum á alþjóðavísu. Um innflutta landbúnaðarvöru þurfa – eins og um aðra vöru – að gilda jafnströng skilyrði og hérlendis um upplýsingar, heilbrigði og siðferðilegan grunn framleiðslunnar.
Loftslagsmál – kolefnisbinding
Á gildistíma Parísarsamkomulagsins, frá 2021 til 2030 þurfa Íslendingar að draga úr losun í áföngum um allt að 40%. Náist það ekki verður að kaupa loftslagsheimildir fyrir milljarða króna. Einboðið er að fara allar leiðir til að ná þessu marki. Hugsanlegt er að með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis mætti ná um 10–15%, og þar horfir Samfylkingin til þátttöku bænda sem bæði hafa þekkingu og aðstöðu til slíkra verka. Málið snýst líka um samdrátt hefðbundinnar losunar, þar á meðal í landbúnaði. Tæknilegar og rekstrarlegar breytingar blasa því við í greininni.
Flokkurinn styður stóraukna landgræðslu – með þeim jurtum sem við á – á þeim mörgu svæðum þar sem landið er að blása upp og leggur áherslu á að beit og ágengum ferðamáta séu sett mörk í grennd við slík svæði. Við teljum að skógrækt og endurheimt landgæða sé auk matvælaþróunar og ferðaþjónustu eitt sóknarfæranna í landbúnaði næstu áratugina. Sátt verður að ná um skógrækt eins og aðrar greinar, innan skipulagsramma og háð umhverfismati.
Innviðir í dreifðum byggðum
Samfylkingin vill að allir Íslendingar njóti ákveðinna grunngæða óháð búsetu. Nýting auðlindaarðsins til að byggja upp atvinnulíf framtíðarinnar getur verið lykill að farsælli byggðastefnu. Með sóknaráætlunum landshluta forgangsraði heimamenn fjárfestingu og uppbyggingu. Auk þess þarf hið opinbera að bjóða störf án staðsetningar og setja á fót dreifðar stjórnsýslustarfsstöðvar. Háhraðanet þarf um allt land, aukið raforkuöryggi, dreifa ferðamönnum betur og styðja við fjölbreytta framhaldsskóla um landið með áherslu á símenntun og fjarnám. Öflugri opinber þjónusta, einkum í mennta- og heilbrigðismálum, er nauðsynlegur hluti af góðu samfélagi og hjartað í byggðastefnu Samfylkingarinnar.
Öflugur innlendur landbúnaður er undirstaða heilnæmrar og öruggrar matvælaframleiðslu í landinu þar sem hagur bænda og neytenda fer saman. Auka þarf nýsköpun og rannsóknir í landbúnaði, vöruþróun sem og möguleika á rekjanleika með upprunamerkingum. Stefnt skal að kolefnishlutleysi greinarinnar í takt við markmið um kolefnishlutlaust Ísland 2040. Tryggja þarf ábyrga umgengni við landið, forðast ofbeit sem og bæta möguleika á lífrænum valkostum í hvers kyns landbúnaði.