Séra Geir Waage sóknarprestur í Reykholti kemur Agnesi M. Sigurðardóttur biskup Íslands til varnar og segir hana aðeins hafa verið að sinna hlutverki sínu með því að benda á að það sé ekki siðferðislega rétt að afhjúpa mál og leiða sannleika í ljós með því að nota stolin gögn. Margir hafa gagnrýnt orð biskups, þar á meðal fjölmiðlamenn, þingmenn og prestar Þjóðkirkjunnar.
Sjá einnig: Biskup Íslands: Ekki réttlætanlegt að stela gögnum til að afhjúpa mál
Sjá einnig: Helgi Seljan svarar Agnesi: Gögnin um Karl Vigni voru „stolin“
Prestarnir Davíð Þór Jónsson, Hildur Eir Bolladóttir og Þórhallur Heimisson hafa öll gagnrýnt biskup. Hefur Davíð Þór meðal annars háðst að biskup á Fésbók:
Júdas sveik Jesú fyrir 30 silfurpeninga. Ástæða þess að við vitum þetta er sú að einhver lak þessum trúnaðarupplýsingum um fjármál Júdasar í guðspjallamennina.
„Fáránlegt bull“
Agnes M. Sigurðardóttir biskup er í fríi og er ekki til viðtals um málið, en nokkur ólga hefur verið innan kirkjunnar vegna málsins og í gær höfðu rúmlega 300 manns sagt sig úr Þjóðkirkjunni á síðustu dögum. Geir Waage sagði í viðtali á Útvarpi Sögu að hann viti ekki fyrir víst að biskup hafi verið að tala um umfjöllun Stundarinnar, Reykjavík Media, RÚV og Guardian um fjármál Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, en þrotabú Glitnis fór fram á lögbann á notkun gagna þar sem um væri að ræða trúnaðarupplýsingar og hefur nú FME kært málið til saksóknara.
Hún talar almennt held ég og bendir á það sem er sjálfsagt og eðlilegt og öldungis algerlega rétt, að þú skalt ekki stela. Það er bara boðorðið sem að hún leggur út á þarna og vitaskuld er ég öldungis sammála henni þarna,
sagði Geir. Hann segir tilganginn ekki helga meðalið. Gagnrýndi hann jafnframt umræðu um leyndarhyggju í þjóðfélaginu, þá sér í lagi þegar Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu:
Þetta er bara fáránlegt bull. Það er alveg rétt að hér ríkir ekki sá trúnaður sem að ætti að ríkja í samfélagi og lengst af hefur ríkt hér á landi og milli stjórnmálaflokka en það sjá það allir undir eins eftir þetta gönuhlaup Bjartar framtíðar að það var ekkert tilefni fyrir þessu.
Tók Geir það þó fram að hann væri þakklátur fyrir að ríkisstjórninni hafi verið slitið, en ekki á forsendum Bjartrar framtíðar. Geir segist kannast við það þegar fólk komi fram með vafasamar tillögur og vísi í siðferði, vitnar hann þá sérstaklega í grein Smára McCarthy þingmanns Pírata sem gagnrýndi biskup og sagði hana hafa blandað sér á mjög óviðeigandi hátt í kosningabaráttuna.
Sjá einnig: Smári segir ummæli biskups óviðeigandi: „Innantómur siðferðisboðskapur er úreltur“
Geir segir þetta um grein Smára:
Hvað er óviðeigandi við orð biskups þegar hún minnir á að þú skalt ekki stela og skalt ekki nota það sem þú veist að er stolið. Þjófsnauturinn er litlu betri en þjófurinn sjálfur. Þetta vita allir menn. Og auðvitað er biskupinn ekki að segja annað en henni ber að segja og halda að fólki. Og hvað er óviðeigandi við það sem biskupinn segir? Henni ber að kenna þetta. Og mjög óviðeigandi hátt segir þingmaðurinn.