Tíu stjórnmálaflokkar bjóða fram í öllum kjördæmum, auk tveggja flokka sem bjóða fram í einstaka kjördæmum. Alls eru 1.370 manns á framboðslistum flokkanna og þar innan um er fólk sem skarað hefur fram úr á ýmsum sviðum öðrum en stjórnmálum. Þetta er brot úr lengri grein úr Helgarblaði DV.
Flokkur fólksins – 7. Reykjavík norður
Karl segist hafa flakkað mikið á milli stjórnmálaflokka í gegnum tíðina. „Ég byrjaði í Alþýðuflokknum, foreldrum mínum til lítillar ánægju. Síðan varð ég Sjálfstæðismaður, síðan Framsóknarmaður og nú er ég kominn í Flokk fólksins. Ég hef alltaf haft áhuga á pólitík, ekki mjög mikinn en samt nokkurn. Það er hægt að segja að ég hafi prófað að lifa báðum megin við borðið. Annars vegar í allsnægtum og hins vegar sem öryrki. Það breytir ýmsu.“ Karl mætti á fundi flokksins og hreifst af áherslunum. Í kjölfarið var hann beðinn að taka sæti og hann varð við því.
„Ég er algjörlega tilbúinn í slaginn. Við erum að tala við fólk og reynum að snúa þeim sem snúið verður. Ég bý í Hamrahlíðinni þar sem búa margir öryrkjar og við verðum að standa saman. Þó að við myndum ekki ná inn á þing þá virðast allir vera komnir með mál öryrkja og eldri borgara á dagskrá. Það þarf að gerast eitthvað í þessum málum og mig óar við tilhugsuninni um að Vinstri græn og þeir komist aftur að. Þeir fóru nú ekki vel með okkur á sínum tíma.“ Karl segir aðaltakmarkið að koma flokknum á þing og allt meira en það yrði plús. En hefði hann áhuga á því sjálfur? „Já, ég held það. Einhvers staðar á mjög djúpu plani.“