Blaðið Vestfirðir sendi frambjóðanda í efsta sæti á öllum níu listum í Norðvesturkjördæmi svohljóðandi spurningu: Aðeins um 7% af framleiðslunni í sjávarútvegi var 2015 á Vestfjörðum, en hlutfallið var um 16% fram til um 1995. Hvaða breytingar telur þú að þurfi að gera, m. a. á löggjöf um stjórn fiskveiða, til þess að sjávarútvegur vaxi á Vestfjörðum til fyrra horfs?
Teitur Björn Einarsson og Haraldur Benediktsson, Sjálfstæðisflokkurinn.
Sjávarútvegur á Íslandi stendur fram fyrir margvíslegum áskorunum. Tækniframfarir breyta framleiðsluferlum og vélar leysa mannshöndina af hólmi sem aldrei fyrr. Auknar kröfur til gæða og hreinleika afurða skipta svo sífellt meira máli í alþjóðaviðskiptum með fiskafurðir og verður íslenskur sjávarútvegur að vera samkeppnishæfur á alþjóðamörkuðum þar sem eldisfiskur ryður sér í auknum mæli til rúms. Margs konar önnur atriði hafa áhrif á geta útgerðarfyrirtækja til að standast alþjóðlega matvælasamkeppni. Nægir að nefna ytri þætti eins og stöðugt lagaumhverfi, umhverfismál og umgjörð efnahagsmála.Nokkur atriði sem stjórnvöld geta komið að málum með beinum hætti munu hafa jákvæð áhrif á getu greinarinnar á Vestfjörðum, sem og á landsinu öllu, til að mæta þessum áskorunum.
Í fyrsta lagi eru veiðigjöld of há og þau verður að lækka ásamt því að breyta fyrirkomulagi á álagningu þeirra. Há veiðigjöld draga úr getu sjávarútvegsins til að fjárfesta í nýsköpun, búnaði og markaðs- og vöruþróun og skerða þar með samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðamörkuðum. Há veiðigjöld bitna þar fyrir utan harðast á byggðum, eins og á Vestfjörðum, sem eiga mikið undir því að fyrirtæki í sjávarútvegi á svæðinu geti vaxið og dafnað. Lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki hafa enn fremur minni getu til að mæta íþyngjandi álögum með hagræðingu í rekstri og hættan er sú að í kjölfarið fækki útgerðum enn frekar með tilheyrandi brottflutningi aflaheimilda frá byggðum sem höllum fæti standa nú þegar. Þessu tengt þá skiptir máli að haldið verði áfram að lækka tryggingagjaldið.
Í öðru lagi verður samkeppnishæfni útgerðarfyrirtækja á Vestfjörðum gagnvart öðrum landshlutum að batna. Uppbygging samgöngumannvirkja, raforkuflutningskerfis og fjarskiptainnaviða á Vestfjörðum gegna lykilhlutverki í því að jafna út þann aðstöðumun sem fyrirtæki á Vestfjörðum búa nú við borið saman við aðra landshluta. Á síðustu árum hefur markverður árangur náðst á Vestfjörðum, eru t.a.m. framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hafnar og ljósleiðaratengingum stórfjölgað. En betur má ef duga skal. Hefja verður vegaframkvæmdir í Gufadalssveit ekki seinna en strax og tryggja verður að haldið verði áfram að uppfæra raforkuflutningskerfið í fjórðungnum.
Í þriðja lagi verður að taka núverandi fyrirkomulag á úthlutun á byggðakvóta til gagngerrar endurskoðunar. Tillögur nefndar um endurskoðun á reglum byggðakvóta, sem Þóroddur Bjarnason var í forsvari fyrir og skilaði tillögum til ráðherra síðasta sumar, eru um margt áhugavert innlegg inn í þá vinnu. Aðalatriði er að ná breiðri samstöðu um að byggðakvóta sé fyrst og fremst ætlað að styðja við þær sjávarbyggðir sem hafa farið halloka vegna mikilla umskipta og breytinga í íslenskum sjávarútvegi sl. áratugi.