fbpx
Sunnudagur 27.júlí 2025
Eyjan

Gunnar Smári heldur líkræðu yfir vinstristjórn sem dó fyrir kosningar: „Vinstri flokkarnir vilja ekki nógu mikið vinna kosningar“

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 24. október 2017 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson. Samsett mynd/DV

„Jæja, samkvæmt könnunum hefur VG, Samfylkingin og Pírötum mistekist að höfða til annarra en þeirra kjósenda sem fyrir fram voru líklegastir til að kjósa einhvern þessara þriggja flokka. Erindi flokkana, áherslur og frambjóðendur, voru valin með væntingar þessara kjósenda í huga, þeirra sem nánast öruggt var að myndu kjósa VG, Samfylkingu eða Pírata.“ Svona hefst langur pistill Gunnar Smára Egilssonar Sósíalistaforingja og fyrrverandi ritstjóra, túlka má pistil hans sem líkræðu yfir vinstristjórn sem aldrei varð. Segir hann að vinstri flokkarnir hafi ekki gert neina tilraun til þess að ávarpa þá sem hugðust kjósa Flokk fólksins í sumar, ekki gert neina tilraun til þess að afla fylgis hjá fólki með lítinn rekstur og ekki gert neina tilraun til að ávarpa fólk á leigumarkaði. Ekki neitt í málflutningi flokkanna sé litað af raunverulegri samkennd með öðrum en börnum á flótta:

Engin tilraun var gerð til að ná frumkvæði í kosningabaráttunni. Hver flokkur reyndi að vera besta útkoman af sjálfum sér, en enginn þeirra reyndi í raun að sækja út fyrir sínar raðir. VG trúði að þau fengju að halda fylginu svo framarlega sem þau gerðu engin mistök. Samfylkingin trúði að fylgi Bjartrar framtíðar og góður hluti af fylgi Viðreisnar myndi berast til sín ef engin stór mistök yrðu gerð. Píratar eru enn að reyna að sanna að þeir séu alvöru flokkur samkvæmt skapalóni sem Sjálfstæðisflokkurinn smíðaði. Píratar réðu auglýsingastofu en lögðu litla áherslu á pólitík, vildu bjóða fram fólkið sitt en ekki stefnu eða plan. Auglýsingaherferðin er í raun mannlegt viðbragð þingfólksins við ásökunum Sjálfstæðismanna um að þau væru ekki nógu frambærileg. Víst, er erindi Pírata þetta árið,

segir Gunnar Smári, hann bætir við:

Þegar um tíma leit út fyrir að þessir flokkar gætu myndað ríkisstjórn fóru þeir að gæla við hugmyndina og gleðjast. Það heitir að veifa upp í stúku. Í stað þess að klára hlaupið af sömu einbeitingu og færði þeim forystuna og kasta sér yfir endalínuna til að ná sem bestum tíma; gleymdu þau sér og fóru að veifa upp í stúku til vina og vandamanna, máta sig við sigurinn. Og Sigmundur Davíð, Þorgerður Katrín, Sigurður Ingi og Bjarni Ben eru nú að hlaupa fram úr þeim á síðustu metrum kosningabaráttunnar.

Munu ekki líta í eigin barm þegar Sigmundur Davíð verður forsætisráðherra

Þegar hlaupinu lýkur mun Ísland svo fá hægristjórn undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Spáir Gunnar Smári því að Vinstri græn, Píratar og Samfylkingin muni skamma kjósendur fyrir að kjósa ekki rétt og neita að spyrja sig hvað það sjálft gerði rangt:

Af hverju haldið þið að Sjálfstæðisflokkurinn þykist vera krataflokkur í kosningum? Það er vegna þess að kjósendur á Íslandi hefur andstyggð á stefnu Sjálfstæðisflokksins og vill lausnir jafnaðarmanna, sósíalískar lausnir í samfélagsmálum. En því miður er slíkum lausnum í raun ekki haldið á lofti af flokkunum, sem eiga rætur til hinnar sósíalísku baráttu síðustu alda. Vinstri flokkarnir veigra sér við halda sósíalískum stefnumálum á lofti þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hæðir þá og skammar ef þeir gera það. Þeir koma því til kosninga með eitthvað sem þeir halda að Sjálfstæðisflokkurinn geti sætt sig við; segjast vera ábyrgir flokkar sem lofa ekki of miklu, hafi fjármagnað allt sitt í bak og fyrir og vilji alls ekkert gera sem raskað geti ró þeirra sem eiga og reka fyrirtækin, arðræna fólkið og flýja með gróðann úr landi. En þá birtist Sjálfstæðisflokkurinn með loforðalista sem nær frá Valhöll til tunglsins og aftur til baka, sem stjórnmálaflokkur sem þorir að dreyma um bætt um samfélag. Sem flokkur sem þorir að spyrja fyrst um hvað við viljum en svo hvað við getum á meðan vinstri flokkarnir vilja fyrst spyrja hvað við getum og hvað við getum sætt okkur við.

Líkir Gunnar Smári Sjálfstæðisflokknum við alkahólista og almenningi sem meðvirkum fjölskyldumeðlimum sem leyfi alkahólistanum að komast upp með að stjórna umræðunni. Áður fyrr börðust vinstrimenn fyrir ókeypis heilbrigðisþjónustu og menntun og ódýru húsnæði, nú aðlagi flokkarnir sig að því að Sjálfstæðisflokkurinn þoli að heyra og voni að hann beini reiði sinni að öðrum en sér:

Og við, kjósendur, veltum fyrir okkur tveimur kostum í kjörklefanum: Eigum við að kjósa skepnuna sem lofar bót og betrun eða fólkið sem gerir aðeins það sem skepnan sættir sig við og ekkert umfram það? Svarið við þessu birtist á lokametrum kosningabaráttunnar. Þegar á reynir hefur vinstri flokkunum ekki tekist að draga upp nógu skýran valkost til mótvægis við óbreytt ástand.

Vinstriflokkarnir snúa sér að eigin kór á meðan hinir snúa sér að söfnuðinum

Segir Gunnar Smári að vinstriflokkarnir hafi heldur ekki verið með áætlun um hvernig ætti að vinna þessar kosningar, á meðan þeir sammæltust ekki um stefnu og forsætisráðherraefni þá riðu aðrir flokkar á vaðið að sanna að þeir væru boðlegur kostur fyrir kjósendur sem myndu aldrei kjósa Vinstri græn, Samfylkinguna og Pírata:

Í stað þess að leyfa VG að eiga fylgi miðaldra millistéttarkvenna sem lögðu megináherslu á kynbundið ofbeldi reyndu hinir flokkarnir að sanna sig einarða í þeim málum, svo dæmi sé tekið. Hverjar voru líkurnar að þessi atkvæði færu á Sjálfstæðisflokk eða Miðflokk? Engar? Eða minni en engar? Til hvers að eyða orku í það sem engu skilar? Fyrir hverjum vill fólk sanna sig og að hverjum vill það snúa? Söfnuðinum eða kórnum? Haldið þið að Sjálfstæðisflokkurinn sé að ávarpa sinn kór, ríkasta fólk landsins, með loforðum um stóraukin ríkisútgjöld? Af hverju snúa vinstri menn sér þá alltaf að sínum kór? Hvers vegna sættir vinstri kórinn sig ekki við að öll hans mál verði ekki sett á oddinn í kosningabaráttu? Veit hann ekki að baráttan snýst um að ná inn týndu sonunum og það er bara fólk með brotna sjálfsmynd sem grenjar yfir að honum sé slátraður kálfur.

Fulltrúar teygjanlegs hugtaks

Segir Gunnar Smári svo að lokum að rót vanda vinstrimanna sé að þeir vilji ekki nógu mikið vinna kosningar:

En rótin af þessum vanda liggur náttúrlega í því að vinstri flokkarnir vilja ekki nógu mikið vinna kosningar. Þeir verða glaðir ef fleiri kjósa þá, líta á það sem verðlaun fyrir að hafa staðið sig vel. En þeir þrá ekki sigur vegna þess að þeir vita í raun ekki til hvers þeir ættu að nota hann. Þeir hafa ekki hugsjón og ekki plan og þeir eru ekki að vinna fyrir neinn sérstakan. Einu sinni voru vinstri flokkarnir fulltrúar launafólks og þeirra sem verst urðu undir óréttlæti kapítalismans. Nú eru eru þeir fulltrúar almennings, sem er hugtak sem skilgreina má hvernig sem fólk kýs hverju sinni. Sá sem er fulltrúi almennings er því í raun aðeins fulltrúi sjálfs síns, honum er frjálst að aðlaga skilgreiningu almennings að eigin væntingum, þörfum og hagsmunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Að vera eða ekki vera umsóknarríki

Að vera eða ekki vera umsóknarríki
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Dagur fagnar heimsókn Ursulu von der Leyen – „Evrópa er því okkar náttúrulegi bandamaður“

Dagur fagnar heimsókn Ursulu von der Leyen – „Evrópa er því okkar náttúrulegi bandamaður“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir stjórnarandstöðuna bergmála rússneskan áróður og lygar – „Af hverju vill hægrið berjast gegn vestrænum gildum?“

Segir stjórnarandstöðuna bergmála rússneskan áróður og lygar – „Af hverju vill hægrið berjast gegn vestrænum gildum?“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

„Ég er hræddur um að stjórnarandstaðan sé gengin af göflunum“

„Ég er hræddur um að stjórnarandstaðan sé gengin af göflunum“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Veit Guðrún Hafsteinsdóttir hvort hún er að koma eða fara?

Svarthöfði skrifar: Veit Guðrún Hafsteinsdóttir hvort hún er að koma eða fara?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu