Það er engin stemmning fyrir Bjartri framtíð. Flokkurinn er í sögulegri lægð. Íkorninn sem eitt sinn dansaði svo fimlega á trjánum og hló að birninum fyrir neðan missti flugið í vetur og hrapaði til jarðar eftir að hann villtist inn í heilbrigðisráðuneytið. Hann liggur nú á gjörgæsludeild, er haldið sofandi í öndunarvél og er ekki að fara að vakna fyrir kosningar. Það eru mun meiri líkur á að íkorninn verði tekinn úr sambandi og sofni svefninum langa. Um það vitnar hver skoðanakönnunin á fætur annarri. Samkvæmt síðustu könnun MMR mældist Björt framtíð með 1,8 prósent fylgi. Þá virðist ekki hjálpa flokknum nokkurn skapaðan hlut að hafa slitið stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn eftir að í ljós kom að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar hafði skrifað upp á uppreist æru fyrir barnaníðing. En á meðan Björt framtíð dalar hefur Miðflokkur verið á siglingu og Samfylking gengið í gegnum vel heppnaða endurnýjun og hefur mælst þriðji stærsti flokkur landsins í síðustu könnunum.
Guðlaug Kristjánsdóttir stjórnarformaður Bjartrar framtíðar og oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi er reið út af þessu samkvæmt grein sem hún skrifaði og birti á Vísi.
„Ég neita að trúa að niðurstaða #höfumhátt á Alþingi verði sú að flokkurinn sem stóð með þolendum verði sendur heim en valdníðsluöflunum hampað. Því það myndi þýða að kjósendur fjarlægðu þolandann af heimilinu en ekki ofbeldismanninn. Íslendingar standa með þolendum. Eins og Björt framtíð.“
Nefnir Guðlaug síðan nokkur önnur atriði sem hún telur Bjartri framtíð til vegsauka. Flokkurinn hafi fengið kosið fatlað fólk á þing og á þar við Freyju Haraldsdóttur. Björt hafi staðið sig vel sem umhverifsráðherra og mörg verk hafi verið unnið í þögn og án upphrópana. Guðlaug segir að lokum í pistli sínum:
„Ég neita að trúa að íslenskir kjósendur láti það gerast að breytingaraflið Björt framtíð verði þaggað í hel. Það hryggir mig ekki, það gerir mig reiða. Ísland á betra skilið.“
Ekki sparka
Freyr Rögnvaldsson sem starfar sem fjölmiðlafulltrúi Samfylkingarinnar deilir greininni á Facebook og segir:
„Þessi grein er það sem kallað er koss dauðans.“
Stefán Pálsson sagnfræðingur segir um stöðu flokksins:
„Ég held að það eina sem geti bjargað þeim núna sé ef þau semja smellinn texta við eitthvert þekkt dægurlag og efstu menn syngi hann saman.“
Rithöfundurinn Einar Kárason sem er í framboði fyrir Samfylkinguna kemur Bjartri framtíð til varnar og segir:
„Allir í Bjartri framtíð voru vinir okkar. Við eigum ekki að sparka í liggjandi fólk.“