Unnur Brá Konráðsdóttir í 4.sæti lista Sjálfstæðisflokks skrifar:
Stærsta verkefni stjórnmálamanna sama hvar í flokki þeir standa er að bæta lífskjör landsmanna. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á styrka efnahagsstjórn. Okkar stefna hefur skilað lægri vöxtum, auknum kaupmætti, lægri verðbólgu og stöðugleika. Stefna Sjálfstæðisflokksins í ríkisfjármálum hefur myndað traustan grunn sem við nýtum til að sækja fram til enn betri lífskjara fyrir alla landsmenn.
Á næsta kjörtímabili mun Sjálfstæðisflokkurinn beita sér fyrir nauðsynlegri uppbyggingu innviða.Bankarnir hafa bolmagn til að greiða ríkinu allt að að 100 milljarða króna í sérstakar arðgreiðslur á næstu árum. Þeir fjármunir verða nýttir til fjárfestinga í samgöngum, menntakerfinu og síðast en ekki síst í heilbrigðiskerfinu. Samgönguverkefnin eru fjölmörg í Suðurkjördæmi en nefna má tvöföldun Reykjanesbrautar, tvöföldun Suðurlandsvegar ásamt nýrri brú á Ölfusá, ný brú yfir Hornafjarðarfljót, klára smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju, átak til fækkunar einbreiðra brúa og uppbygging vegakerfisins í þessu fjölfarnasta kjördæmi landsins. Í menntakerfinu þarf að styrkja framhaldsskólana í kjördæminu sem og hlúa að símenntun og starfsemi háskólanna í kjördæminu. Við ætlum að efla heilsugæsluna og setja þrjá milljarða í fjölgun hjúkrunarrýma en með því náum við verulegri hagræðingu í heilbrigðiskerfinu í heild því þær aðgerðir létta álagi af spítölum landsins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðustu árum fært heimilum landsins miklar kjarabætur með því að afnema vörugjöld og tolla af öllum vörum nema landbúnaðarvörum. Um síðustu áramót afnámum við milliþrep tekjuskattsins, sem var yfir 40% miðað við meðalútsvar árið 2013, og lækkuðum neðra þrepið í tæp 37%. Næsta skref er að lækka neðra þrepið enn frekar í 35%. Jafnframt ætlum við að lækka tryggingargjaldið enn frekar en það er besta leiðin til að styðja við atvinnulífið.Við munum áfram halda vel utan um eldri kynslóðina en við leggjum áherslu á að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara. Næsta skref í því stóra verkefni er að hækka frítekjumarkið í 100 þúsund krónur á mánuði.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur skýra sýn á framtíðina og við ætlum að koma á fót Þjóðarsjóði í þágu kynslóðanna. Í því felst að við viljum setja arðinn af orkuauðlindum landsins í sérstakan sjóð. Sjóðurinn hefur það hlutverk að vera sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið, hindra ofhitnun er vel árar og tryggja komandi kynslóðum hlutdeild í arði af sameiginlegum auðlindum. Við munum nýta hluta sjóðsins í aðkallandi samfélagsverkefni.
Ég trúi því að íslenskri þjóð farnist best þegar gildi og stefna Sjálfstæðisflokksins eru leiðarljósiðvið stjórn landsins. Við erum stolt af verkum okkar við á liðnum árum og óskum eftir þínum stuðningi til að halda áfram á sömu braut.