Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá afstöðu flokka til uppreist æru til landbúnaðarmála.
Í dag er spurt:
Á að breyta stjórnarskrá Íslands? Ef svo, hvernig?
Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.
Björt framtíð leggur mikla áherslu á að vinna við endurskoðun stjórnarskrár hefjist sem allra fyrst. Í ríkisstjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar, sem Björt framtíð átti aðild að, var það eitt af stefnumálunum að unnið yrði að endurskoðun stjórnarskrár á grundvelli þess viðamikla starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Ríkisstjórnin hugðist bjóða öllum flokkum sem sæti ættu á Alþingi að skipa fulltrúa í þingmannanefnd sem starfa átti með færustu sérfræðingum á sviði stjórnskipunar að sem bestri sátt um tilögur að breytingum sem leggj átti fram eigi síðar en 2019. Með því mætti ná sátt um það í hverju breytingarnar væru fólgnar og hvernig þær yrðu útfærðar. Slík þverpólitísk sátt er eina raunhæfa leiðin til að sátt verði um svo viðamikið og mikilvægt mál en leggur áherslu á að niðurstaða Stjórnlagaráðs verði höfð að leiðarljósi.
Framsókn vill auðlindaákvæði í stjórnarskrá
Stjórnarskrá lýðveldisins þarf að taka mið af nýju auðlindaákvæði og skýrum ákvæðum um beint lýðræði og ekki verði opnað á framsal fullveldis. Framsóknarflokkurinn er hlynntur persónukjöri og vill auka vægi beins lýðræðis við ákvarðanatöku samfélagsins, meðal annars með lögfestingu reglna um þjóðarfrumkvæði.
Ljúka þarf endurskoðun stjórnarskrárinnar með víðtækri sátt, meðal annars til þess efla beint lýðræði þannig að almenningur geti komið að ákvörðunum um mikilvæg málefni. Skerpa á þrískiptingu ríkisvaldsins. Vægi atkvæða skal vera jafnt, óháð búsetu. Sérhagsmunir skulu víkja fyrir almannahagsmunum.
Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins enda kveður hún á um grundvallarreglur lýðveldisins, hlutverk og valdmörk handhafa ríkisvaldsins og mannréttindi borgaranna. Hyggja þarf vel að breytingum á stjórnarskránni og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan, til að gaumgæfa tillögur að breytingum og meta áhrif þeirra.
Í þessu ljósi telur Sjálfstæðisflokkurinn að fara skuli varlega í stjórnarskrárbreytingar. Heildarendurskoðun og umturnun á svo til öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar í einni lotu samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi, stöðugleika og fyrirsjáanleika. Flokkurinn hefur því lagt áherslu á það á að skynsamlegt sé að áfangaskipta endurskoðunarvinnunni.
Að sama skapi telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að breytingar á stjórnarskrá séu gerðar í víðtækri pólitískri sátt. Þessi sjónarmið hafa verið útgangspunktur í allri tillögugerð sjálfstæðismanna á þessu sviði á undanförnum árum.
Sjálfstæðisflokkurinn telur óheillavænlegt að knýja fram róttækar breytingar á stjórnarskrá í krafti meirihluta hverju sinni. Breytingar á stjórnarskrá á miklu frekar að ákveða af yfirvegun og í áföngum í sem mestri samstöðu til að tryggja stöðugleika í stjórnskipun landsins.
Píratar hafa aldrei hætt að berjast fyrir stjórnarskránni heldur virt vilja íslensku þjóðarinnar, enda á vald í lýðræðisríki að koma frá þjóðinni en ekki að ofan eins og í konungsríki. Núverandi stjórnarskrá var skrifuð fyrir konungsríki og við lýðveldisstofnun var almenn sátt um að hún skyldi uppfærð. Það hefur þó tafist lengi síðan Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, skammaði alþingi fyrir að ekki hafa hafið vinnuna. Nú erum við svo heppin að drög að nýrri stjórnarskrá hafa verið unnin af þjóðkjörnu stjórnlagaráði og að þjóðin skyldi hafa samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að ný stjórnarskrá byggð á vinnu stjórnlagaþings ættu að vera æðstu lög í landinu. Því miður hefur Alþingi dregið lappirnar líkt og frá lýðveldisstofnun. Píratar vilja klára stjórnarskrárferlið og líta síðan til framtíðarinnar.
Ný stjórnarskrá sem veitir þjóðinni rétt til að kalla eftir umræðu á þingi eða koma í veg fyrir óvinsæl mál mun tryggja stöðugra og betra lýðræði. Með nýrri stjórnarskrá yrði tryggt að stjórnvöld gætu ekki lengur hunsað vilja Íslendinga. Einnig myndi þingið styrkjast og hömlur yrðu settar á ægivald ráðherra með aðskilnaði framkvæmdavalds og löggjafans. Það mun veita valdhöfum nauðsynlegt aðhald og einnig skýra hvar ábyrgðarsvið hvers og eins kjörins fulltrúa liggur, hvort sem um forseta, ráðherra eða þingmann er að ræða. Að lokum tryggir ný stjórnarskrá ýmis grundvallarmannréttindi og skerpir þau sem fyrir eru.
Píratar leggja því höfuðáherslu á að klára stjórnarskrárferlið en á síðasta þingi lögðu þeir til að þjóðin fengi úrskurðarvald um nýja stjórnarskrá með því að þingið samþykkti bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili.
Alþýðufylkingin styður að frumvarp stjórnlagaráðs taki gildi sem fyrst sem ný stjórnarskrá. En þegar hún hefur tekið gildi viljum við samt gera breytingar á henni.
Alþýðufylkingin tekur ekki undir þá skoðun að orsök kreppunnar sé að finna í stjórnarskránni og því sé brýnt að breyta henna til að koma á samfélagslegum breytingum. Enda koma miklar breytingar á stjórnarskrám frekar í kjölfar þjóðfélagsbreytinga en að stuðla að þeim.
Frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá felur í sér ýmsar breytingar sem eru til bóta, t.d. um aukna aðkomu almennings að málum gegnum þjóðaratkvæðagreislur. Þá er greinin um náttúruauðlindir mjög til bóta og fleira mætti nefna. Hins vegar virðist 111. greinin um framsal ríkisvalds aðallega þjóna þeim tilgangi að auðvelda inngöngu í ESB.
Þegar kemur til uppstokkunar á stjórnarskránni verður fullt tilefni til að beita sér fyrir mun meiri breytingum til jafnaðar og hagsbóta fyrir alþýðuna en stjórnlagaráð hefur lagt til. Þar má nefna ítarlegri skilgreiningu á eignarréttinum sem kvæði á um að eignarréttur allra skuli verða jafn gildur. Núverandi skilgreining sem aðeins segir að eignarrétturinn sé friðhelgur, er mest notuð til að renna stoðum undir rétt auðstéttarinnar til að halda sínu og græða á eigin auðmagni. Setja mætti í stjórnarskrá ákvæði um hámarks launamun, félagslegan rekstur á innviðum samfélagsins og fleira sem setur auðstéttinni skorður en bætir réttarstöðu alþýðunnar.
Samfylkingin vill breyta stjórnarskránni á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs sem meirihluti studdi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ljúka skal ferlinu þar sem frá var horfið vorið 2013 og nýja stjórnarskráin lögð fyrir Alþingi Íslendinga til samþykktar.
Við höfum lagt á það áherslur að ný stjórnarskrá tryggi eign almennings á auðlindum og sjálfbæra nýtingu þeirra. Þá er aðgreining valdþátta, ekki síst löggjafarvalds og framkvæmdarvalds mikilvæg.
Raunverulegt þingræði og jafnt vægi atkvæða
Við viljum raunverulegt þingræði og jafnt vægi atkvæða allra kjósenda. Stjórnarskrá skal leggja áherslu á kvenfrelsi og fyllstu mannréttindi þar með talin efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
Í nýrri stjórnarskrá skulu vera skýr ákvæði um framsal valds vegna alþjóðasamninga auk ákvæða um þjóðaratkvæðagreiðslur.
Ljúkum þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klárum nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs.