„Algjörlega sammála því að við erum í dauðafæri til að breyta fjármálakerfinu þannig að það sé í þágu almennings en ekki til þess að neytendur og heimili séu blóðmjólkuð af kerfinu í formi okurvaxta, verðtryggingar og himinhárra þjónustugjalda.“
Þetta segir verkalýðsforinginn Vilhjálmur Birgisson í pistli á Pressunni. Pistilinn skrifar Vilhjálmur eftir að hafa hlustað á Sigmund Davíð Gunnlaugsson í Bítinu í morgun. Vilhjálmur segir:
„Ég vil vekja athygli á því að viðskiptabankarnir þrír hafa skilað frá hruni rétt tæpum 700 milljörðum í hagnað m.a. vegna þess að þeim var gefið skotleyfi á íslensk heimili þegar kröfur voru færðar með miklum afslætti frá gömlu yfir í nýju bankana.“
Vilhjálmur segir hagnað bankanna byggjast á þrennu. Okurvöxtum, verðtryggingu og himinháum þjónustugjöldum.
Nú er mál að linni og því þarf að koma á fjármálakerfi sem hættir að mergsjúga íslenska neytendur og því er mikilvægt að komið verði á laggirnar samfélagsbanka íslenskum almenningi til hagsbóta.
Þá endar Vilhjálmur pistilinn á þessum orðum:
Það er með svo miklum ólíkindum að íslenskir neytendur þurfi að greiða 92 þúsund krónum meira í hverjum einasta mánuði í vexti af óverðtryggðu húsnæðisláni en gerist á Norðurlöndunum og því spyr ég hvað er brýnna fyrir íslenska neytendur en að tekið verði á þessum okurvaxtamálum?