Geir Jón Þórisson er mikill Sjálfstæðismaður og er á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Hann ætlar samt ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Þetta kemur fram á vefnum Eyjar.net. Geir Jón var varaþingmaður á síðasta kjörtímabili. Þá hefur hann verið yfirlögregluþjónn í Reykjavík í fjölda ára. Er hann nú búsettur í Vestmannaeyjum.
Geir Jón er reiður og er ástæðan fyrir því að þungt er í honum hljóðið er að Kristján Þorbjörnsson yfirlögregluþjónn á Blönduósi var rekinn ári áður en hann átti að fara á eftirlaun við 65 ára aldur. Krafðist Geir Jón að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra myndi grípa í taumana. Geir Jón sagði um málið á sínum tíma við Vísi:
„ … fordómalaust að æviskipaður yfirlögregluþjónn, sem hefur starfað í yfir 30 ár með óflekkaðan feril, með betri mönnum og á eitt ár eftir þegar biðlaun verða að fullu greitt, sé vikið frá störfum.“
Þá sagði Geir Jón einnig:
„Ég ætlast til þess að núverandi hæstvirtur dómsmálaráðherra, Sigríður Á Andersen, grípi inn í og stöðvi þessa ósvinnu. Þetta hefur aldrei gerst í sögu lögreglunnar á Íslandi, með þessu hætti […] Ég á ekki orð yfir þetta.“
Geir Jón tjáir sig við Eyjar.net. Þar kemur fram að Sigríður ætlar ekki að aðhafast neitt í málinu.
,,Það er því ljóst að ég get ekki stutt flokk sem kemur svona fram við mann sem hefur gegnt sínu starfi með sóma. Ég hef greint formanni Sjálfstæðisflokksins frá þessari afstöðu minni sem og efstu mönnum á lista flokksins í kjördæminu.“