Ný ríkisstjórn hefur nú tekið við stjórn landsins. Reykjanes leitaði til þingmanna, sem búsettir eru á Suðurnesjum og bað þá að svara eftirfarandi spurningum.
Oddný G.Harðardóttir þingkona Samfylkingar svaraði spurningum blaðsins.
Hvernig líst þér á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar?
Stefnuyfirlýsingin er orðuð með afar almennum hætti. Þar eru nefnd ýmis ágæt mál sem eftir er að sjá hvernig verða efnd. Það vekur hins vegar athygli að húsnæðismál eru ekki nefnd á nafn. Ófremdarástand ríkir á húsnæðismarkaði, einkum á höfuðborgarsvæðinu og ungt fólk á í erfiðleikum með að eignast heimili, hvort sem er eigið eða á leigumarkaði. Mér finnst augljóst að stjórnvöld verða að koma að lausn þessara mála sem eru svo nátengd þróun ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan spennir upp verð á stórum landsvæðum og veldur því að samkeppni unga fólksins við fjárfesta og fyrirtæki á húsnæðismarkaði er hörð og fellur þeim ekki í vil. Öryrkjar eru ekki heldur nefndir en þeir hafa einir setið eftir þegar að kemur að kjarabótum og kerfisbreytingum almannatrygginga. Það er óásættanlegt.
Mér finnst nokkuð ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð góðum samningum enda kannski ekki við öðru að búast þegar að samstarfið er við klofningsframboð flokksins. Algjör eftirgjöf hinna svokölluðu miðjuflokka í sjávarútvegsmálum, Evrópumálum og landbúnaðarmálum er himinhrópandi og áform um stjórnarskrárbreytingar eru einnig að smekk Sjálfstæðisflokksins. Þetta er hægristjórn og ég geri ráð fyrir að hún geri það sem hægristjórnir gera, lækka skatta á hátekjufólk á kostnað almennings og hækka gjöld í mennta- og velferðarkerfinu og þar með álögur á almennt launafólk. Hagstjórn hægriflokka hefur hingað til ekki verið þjóðinni til góðs og ég sé ekki að á því verði breyting á kjörtímabilinu.
Hver verða helstu baráttumálin fyrir Suðurnesin á kjörtímabilinu?
Heilbrigðismálin eru mjög aðkallandi en það eru menntamálin einnig. Kerfisbreytingar sem leiða til betri kjara öryrkja og fatlaðra skipta okkur miklu eins og í öðrum landshlutum. Mikið álag er á helstu akstursleiðum á Suðurnesjum, ekki síst á Reykjanesbraut frá Fitjum að Leifsstöð og á Grindarvíkurvegi vegna aðsóknar í Bláa lónið. Þessir tveir vegir, sem verður að laga, eiga að vera í forgangi okkar þingmanna þegar litið er til Suðurnesja.
Uppbygging hjúkrunarheimila er annað forgangsmál en hér er lengsti biðtími á landinu eftir hjúkrunarrýmum og fæst pláss á 80 ára íbúa og eldri. Þó sú staða sé löngu kunn er ekki að finna uppbyggingaráform hér í fimm ára áætlun fráfarandi ríkisstjórnar.
Sjávarútvegsmál og hvernig arðurinn af auðlindinni skiptist á milli þeirra sem fénýta hana og fólksins í landinu kemur okkur sannarlega við. Þar hallar á ríkið og sveitarfélögin og það er mikið réttlætismál að á því ójafnvægi verði tekið.
Síðast en ekki síst eigum við að gera þá kröfu, sem ég reyndar lagði til á síðasta kjörtímabili en fékk ekki stuðning við, að gerð verði könnun á kostum þess að flytja innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar og að mat verði lagt á rekstrargrundvöll og möguleg sóknarfæri Keflavíkurflugvallar með tilliti til þróunarmöguleika flugvallarins og áhrifa á íbúa, ferðaþjónustu og atvinnulíf á Suðurnesjum.
Birtist fyrst í Reykjanes. Smelltu hér til að lesa blaðið í heild sinni.